137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[17:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar um að ég hef sjaldan upplifað annan eins dónaskap gagnvart þinginu. Við þingmenn höfum þá reglu að ekki er fundað í nefndum þingsins þegar þingfundir standa. Ég var sjálf á nefndarfundi í hádeginu sem byrjaði klukkan eitt. Við ræddum þar mjög mikilvægt mál sem varðar sparisjóðina í landinu og hefðum gjarnan viljað funda lengur og töluðum um það við formann nefndarinnar en þingfundur var að hefjast þannig að það gekk að sjálfsögðu engan veginn að við héldum áfram fundi.

Nú stendur yfir blaðamannafundur í þinghúsinu samkvæmt þeim upplýsingum sem við vorum að fá, á meðan á þingfundi stendur, á meðan við erum að tala um ríkisfjármálin, peningana sem eiga væntanlega að koma til þess að borga eitthvað af þessum blessaða Icesave-samningi. (Forseti hringir.) Ég ítreka ósk þingmannsins um að fjármálaráðherra verði kallaður hingað strax (Forseti hringir.) og ég held að það væri við hæfi að forsætisráðherra sæti líka undir þessari umræðu.