137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[17:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram áðan um fjarveru eða nærveru hæstv. fjármálaráðherra er rétt að taka það fram að vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem voru hér í dag leitaði fjármálaráðherra eftir því hvort það væri þeim sem hér stendur að meinalausu þó að hann léti ræðu hans fram hjá sér fara vegna þeirra frétta sem hann þurfti að færa af því þingmáli sem hér er lagt fram í dag og allir hafa beðið eftir, bæði innan þings og utan þings og varðar samkomulagið um Icesave og varðar auðvitað miklu um það mál sem við erum hér að fjalla um. Ég taldi bara rétt að þetta kæmi fram vegna þeirra orða sem féllu áðan án þess að hafa frekari skoðanir á því.

Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir málefnalega umfjöllun um þá mikilvægu skýrslu sem við erum að fjalla um í dag og beðið hefur verið með nokkurri óþreyju. Á þessu langa og stranga sumarþingi er verið að vinna að fjölmörgum stórverkefnum og stundum er eins og mörg sverð séu á lofti í senn því að á þessu sumri er auðvitað verið að leggja grunninn að endurreisn íslensk efnahagslífs og leiða til lykta gríðarlega mörg og stór og flókin verkefni. Við getum nefnt fjögur af þeim verkefnum sem liggja fyrir sumarþinginu og ríkisstjórninni á þessu sumri. Það er í fyrsta lagi að endurreisa fjármálakerfið í landinu, bankana, og endurfjármagna þá og það kemur auðvitað talsvert við það mál sem við fjöllum um hér í dag því þar er um að ræða gríðarlega mikla fjármögnunarþörf, svo að skiptir hundruðum milljarða króna. En það er tvímælalaust í nánustu framtíð það brýnasta verkefni sem unnið er að og fagnaðarefni að nú sjái fyrir endalokin á þeim leiðangri því að bankakerfið þarf að vera bakhjarl atvinnulífsins og í stakk búið til þess að styðja atvinnulífið í gegnum þá mánuði og missiri sem fram undan eru og styðja fyrirtækin við að fjárfesta á ný, að vaxa á ný, að skapa ný atvinnutækifæri í landinu. Það er auðvitað mikilvægt að við höfum það í huga um leið og hér er sannarlega erfitt atvinnuástand og mörg fyrirtæki í erfiðum rekstri.

Sem betur fer er það líka þannig að sumar atvinnugreinar búa við batnandi skilyrði og hafa verið að styrkjast og eflast og geta þá haft færi á því að skapa sér ný störf og ný tækifæri á næstu mánuðum og missirum og það er auðvitað það sem mun ráða mestu um velferð okkar á næstu árum, þ.e. að hjól verðmætasköpunarinnar verði aftur knúin í gang. Atvinnulífið á auðvitað fyrst og fremst að sjá um það verk og velja þau tækifæri sem ráðist er í. En okkar verkefni hér í þinginu er að tryggja að sá bakhjarl sem bankakerfið þarf að vera komist aftur af stað og síðan að tryggja hið almenna umhverfi, vexti, gengisstöðu og stöðugleika almennt. Sú skýrsla sem er rædd í dag er auðvitað líka mikilvægt innlegg í það að skapa atvinnulífinu þessi almennu skilyrði.

Stöðugleikasáttmálinn, sem skýrslan auðvitað tengist, við aðila vinnumarkaðarins, leggur grunn fyrir áframhaldandi vaxtalækkunarferli, sem við megum binda vonir við og væntingar. Það hefur sem betur fer tekist að lækka nokkuð vexti frá því sem var en það þarf að ganga enn betur ef duga skal, því að það er auðvitað algjörlega óviðunandi að hafa hér vaxtastig í tveggja stafa tölu og mikilvægt að hún verði undir 10% í raun og veru hið allra fyrsta til þess að skapa atvinnulífinu þau skilyrði sem það þarf til vaxtar og viðgangs og til þess að vinna á því atvinnuleysi sem er sú höfuðmeinsemd sem við er að stríða til skemmri tíma.

Í öðru lagi erum við náttúrlega undir með stórmál sem einhvern tíma hefði þótt þurfa heilt sumarþing undir eitt sér, sem er trúverðug og skýr framtíðarsýn, aðildarumsókn að Evrópusambandinu og yfirlýsing, ef af verður, af Íslands hálfu í efnahagsmálum til lengri framtíðar sem getur orðið mikilvægur þáttur í því að styrkja og efla trúverðugleika okkar, bæði í alþjóðasamfélaginu og alþjóðlegum viðskiptum en líka á íslenskan efnahag og það að hér sé fyrir hendi langtímastefnumörkun um það hvert þessi þjóð ætlar sér í efnahagsmálum og kannski ekki síst í gjaldmiðilsmálum. Við vitum auðvitað að sá leiðangur er, ólíkt endurreisn bankanna, langtímaleiðangur og mun fyrst og fremst skila okkur árangri og ávinningum til lengri tíma þó að hann geti hjálpað til við að treysta trúverðugleika okkar sömuleiðis í núinu.

Í þriðja lagi erum við náttúrlega að fást við erfiðustu milliríkjadeilur síðari ára, Icesave-samningana, sem lagðir eru fram hér í þinginu í dag og voru kynntir á blaðamannafundum fyrr. Það hver úrlausn fæst í þeim málum mun auðvitað ráða miklu um farsæld okkar og líka varða miklu þá skýrslu sem hér er fyrir um jöfnuð í ríkisfjármálum.

Fjórða stóra verkefnið er að ná tökum á þeim gríðarlega mikla hallarekstri sem er á ríkissjóði Íslands sem nemur í dag 500 millj. kr. á dag. Þær 500 millj. kr. erum við sem nú lifum bara að taka að láni og leggja sem skuldir á börn okkar og barnabörn og það er þess vegna algjörlega nauðsynlegt að taka á þeim hallarekstri og leggja fram þessa trúverðugu áætlun um það með hvaða hætti það megi gerast á tiltölulega skömmum tíma en þó þannig að það verði ekki til þess að dýpka niðursveifluna á yfirstandandi ári, því að það gæti auðvitað skapað meiri vanda en það leysir.

Í tengslum við þetta og stundum áður hefur farið fram nokkur umræða um það að hér sé fyrst og fremst verið að skattleggja sig út úr vandanum. Ég held að það sé annað tveggja mikill misskilningur eða hitt að það sé afflutningur, vegna þess að sú stefna liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar að hlutdeild hins opinbera í þjóðarframleiðslunni eigi ekki að vaxa heldur haldast áfram óbreytt, sem þýðir það einfaldlega að hið opinbera verður að taka á sig sama samdrátt og aðrir geirar samfélagsins og draga úr umsvifum sínum með sama hætti og mun þess vegna á þessu tímabili ekki vera að auka hlut sinn í kökunni frá því sem nú er. Það leiðir auðvitað af sér umtalsverðan niðurskurð. Hins vegar að ímynda sér að það megi brúa þann mikla hallarekstur sem er á ríkissjóði einvörðungu með niðurskurði á útgjöldum, það vita auðvitað þeir sem skyggnast í tölurnar að er einfaldlega fráleitt og langt í frá að vera skynsamlegt, vegna þess að til þess þyrftum við annaðhvort að hætta að borga bætur í landinu, atvinnuleysisbætur, atvinnuleysistryggingar, almannatryggingar, niðurgreiðslur til bænda eða hvað það nú er annað sem í tilfærslunum er, leggja það af með öllu, eða þá að leggja af allan ríkisreksturinn vegna þess að hallinn sem við erum að fást við, hátt í 200 milljarðar kr., nemur einfaldlega nærfellt öllum kostnaðinum við rekstur stofnana ríkisins. Eða í þriðja lagi að menn gætu sem sagt lagt niður aðra hverja stofnun ríkisins í landinu, heilbrigðis-, skóla- og félagsþjónustu og skorið allar bætur í landinu niður um helming. Það sér það auðvitað hver maður í hendi sér að slíkar aðgerðir eru úr öllu samhengi og það mundi enginn í alvörunni tala fyrir því að ráðast í það. Þá er einfaldlega óhjákvæmilegt að mæta hluta af vandanum með aukinni tekjuöflun.

Ég held að við eigum ekki að fjalla um það af þeirri svartsýni sem hér hefur verið gert um skattpíningu eða aðra slíka hluti heldur reyna líka í þessari umræðu að horfa þó á þá jákvæðu þætti sem við höfum til þess að líta til. Einn þeirra er sá að við höfum á undanförnum árum verið að leggja af fjölmarga skatta og lækka skatta töluvert. Nú hefur einfaldlega komið í ljós að við höfðum ekki efni á því og við kunnum að þurfa að taka þá upp aftur. Lífið var samt ágætt áður en þeir voru lækkaðir og við réðum alveg við framfærslu okkar þegar þeir voru eins og þeir voru. Það að vinda aðeins ofan (Forseti hringir.) af ákvörðunum okkar í þeim efnum, rétt eins og útgjaldahliðinni, held ég því að eigi sannarlega (Forseti hringir.) ekki að vera ofverkið okkar.