137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[17:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en áréttað það sem ég sagði að í dag og næstu mánuði og missiri skiptir það okkur mestu máli að endurreisa fjármálakerfið, að fjármagna bankana í landinu til að vera bakstuðningur við atvinnulífið og skapa störf og efla verðmætasköpunina í landinu og sömuleiðis halda áfram að ná þeim árangri sem ríkisstjórninni hefur verið að takast, þ.e. að skapa aðstæður til að lækka vexti og með stöðugleikasáttmálanum sem náðist í síðustu viku eru enn frekar að skapast skilyrði fyrir því að lækka vexti og búa atvinnulífinu þannig hinar almennu aðstæður til árangurs í verðmætasköpuninni og atvinnusköpuninni. Ég held að þar eigi fyrst og fremst áhersla stjórnvalda að vera á lausnirnar en ekki á fiskeldi eða loðdýrarækt eða einhverjar slíkar miðstýrðar ákvarðanir um fjárfestingar eins og menn hafa af misráðnum hug farið í oft áður í sögunni. Það eru þessar almennu aðgerðir sem eiga að vera lausnir stjórnvalda nú og alla jafnan.

Um Evrópusambandið er það þannig og það þekkir hv. þingmaður að þjóðir sem eru í aðildarferli, einfaldlega með því að hefja það ferli á alþjóðlegum vettvangi, auka þær trúverðugleika sinn, gera betur grein fyrir sér og hvert þær stefna, þ.e. að þær hafa í hyggju að verða hluti af viðurkenndu alþjóðlegu lagaumhverfi, verða fullur hluti af evrópska markaðnum, líka af stofnanaumhverfi hans og stefni á það til lengri tíma litið að taka upp gjaldmiðil sem menn þekkja og skilja og nota í viðskiptum. Þó að það muni taka langan tíma að ná þeim áföngum þá hefur það samt góð áhrif á trúverðugleika landsins nú þegar.