137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[17:57]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir hans ræðu áðan. Við getum verið sammála um að brýna nauðsyn ber til að auka tekjur ríkissjóðs. En við getum líka verið sammála um að vera ósammála um þær leiðir sem valdar eru. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann viti nokkuð meira en það sem stendur í þessari skýrslu því að bæði á blaðsíðu 25 og á blaðsíðu 27 eru boðaðir enn fleiri skattar en við þegar höfum séð í frumvarpi sem nýlega hefur verið afgreitt héðan frá þingi. Það er talað um endurskoðun á tekjuskattskerfinu og að það verði kynnt í byrjun janúar 2010.

Hv. þm. Helgi Hjörvar er stjórnarþingmaður og ætti því að vita aðeins meira og gæti kannski upplýst um hvort verið sé að íhuga að taka hér upp þrepaskipt skattkerfi. Einnig er talað um aðra skatta, um eignarskatt og erfðafjárskatt og það er talað um eignarskatt af stórum eignum. Hvað telst stór eign? Það hefur bæði gengið erfiðlega að fá að vita hvað séu há laun og hvað sé stórt í huga þessarar ríkisstjórnar þegar um skattlagningu er að ræða.

Að síðustu, frú forseti, langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér og hvernig honum hugnist þær tillögur sem lagðar hafa verið fram um að innskatta lífeyrissjóðsgreiðslur í staðinn fyrir útsköttun þegar lífeyrissjóðurinn er greiddur út og hvort þar sé ekki hægt að horfa til tekna sem koma síður við þá heimilin og fyrirtækin í landinu en þær skattbreytingar sem hér er verið að leggja til og hér er verið að boða á blaðsíðu 25 og blaðsíðu 27 í formi breytts tekjuskatts, erfðafjárskatts og eignarskatts.