137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[17:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég vil fyrst fá að undirstrika að hér er ekki bara tekjuhliðin undir. Þau eru mjög mikilvæg áformin um samdrátt í útgjöldum sem eru kynnt í áætluninni og miklar kröfur eru um niðurskurð útgjalda. Ég ætla að það sé líka gríðarlega mikilvægt að við breytum þeirri menningu og höfum forustu um það í þinginu, hv. fjárlaganefnd, að það sé jafnan farið fram úr fjárlagaheimildum. Það þarf mjög að efla allt það aðhald.

Um skattana er það að segja að í þeim atriðum sem tæpt er á í skýrslunni er í raun bara verið að nefna valkosti. Ég held að út af fyrir sig sé býsna nærtækt að horfa bæði í útgjaldahliðinni og sköttunum til þeirra ráðstafana sem við höfum verið að grípa til á allra síðustu árum í hámarki góðærisins, útgjaldaaukningu sem varð til þá og til tekna sem við féllum frá á þeim tíma og að við endurskoðum þær ákvarðanir af því að ég held, eins og ég sagði í ræðu minni, það geti ekki verið mjög sársaukafullt fyrir okkur þó að við þurfum bara að hverfa nokkur ár aftur í tímann í sköttum og í útgjöldum ríkisins. Við getum náð býsna miklum árangri í því. En ef slíkar aðgerðir duga okkur ekki þá held ég að það sé alveg vert að skoða þær hugmyndir sem hv. þingmaður nefnir og snúa að lífeyrissjóðunum. Ég held hins vegar að það sé eitthvað sem kæmi til á síðari stigum.

Ég held að þetta sé svo stórt gat að það sé óhjákvæmilegt að við skoðum allar hugmyndir hvaðan sem þær koma og förum málefnalega yfir þær og ræðum þær í þaula. Þeir hlutir sem nefndir eru í þessari skýrslu eru einfaldlega nefndir þar til að fara í umræðu og ná síðan um niðurstöðu. Ég get komið að þessum sem fjalla um stóreignaskattinn og erfðafjárskattinn og þrepaskatt hugsanlegan í síðara andsvari mínu.