137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[18:44]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir útskýringar hennar og vænti þess og beini því til nefndarinnar sem fær þetta mál til umsagnar að skoða að það standi klárt og kvitt, að í frumvarpinu sé verið að leggja til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem er einn maður, eitt atkvæði, en ekki misvægi atkvæða. Þannig að það fari ekkert á milli mála og við séum ekki að túlka lögin heldur séu þau skýr.

Hæstv. forsætisráðherra svaraði ágætlega þeim spurningum sem ég beindi til hennar nema um 11. gr., hvort hæstv. forsætisráðherra teldi að það þyrfti að setja einhvern lágmarksfjölda þeirra sem tækju þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu ef einfaldur meiri hluti þeirra sem tekur þátt á að ráða för. Hvort það nægi að t.d. 15% þjóðarinnar taki þátt, eða 30% eða hvort það nægi bara meiri hluti þeirra sem taka þátt, óháð því hvað þeir eru margir.