137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[18:47]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og glöggt kemur fram í andsvörum hjá hv. þingmönnum þá er mikill áhugi fyrir þessu máli eðlilega vegna þess að það hefur lengi verið kallað eftir því að sett yrðu lög um þjóðaratkvæðagreiðslu og vonandi er runninn upp sá tími að við séum að festa slíkt í lög.

Eins og kom fram í máli mínu var þetta mál unnið í samráði allra stjórnmálaflokka á Alþingi þannig að allir höfðu tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að í þessu máli. Það sem hv. þingmaður nefndi varðandi það að minni hluti þingmanna hafi þennan rétt, er vissulega einn kostur í málinu og er við lýði ef ég man rétt í Danmörku. En eftir því sem ég skil málið rétt er þetta þannig að þegar slíkt er ekki fest í stjórnarskránni, að minni hluti þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, þá er ekki hægt að kveða á um slíkt í einföldum almennum lögum. Við höfðum vissulega tækifæri til þess á síðasta þingi þar sem við vorum að fjalla um stjórnarskrárbreytingar, að gera slíkt. Þar var mikilvægt ákvæði sem því miður náði ekki fram að ganga. Það er aðferðin við að breyta stjórnarskránni, þ.e. að hægt sé að breyta henni án þess að rjúfa þurfi þing og boða til kosninga, sem ég held að hefði verið afar mikilvægt að ná fram og þar var líka ákvæði um almennan rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu sem er ákvæði sem ég tel afar mikilvægt að sé skoðað, ekki síst ef við stofnum til stjórnlagaþings, að það sé ákvæði sem stjórnlagaþing fær til meðferðar. Ég hef flutt frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem var einmitt ákvæði um að þjóðin hefði rétt til þess að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur og ég er alveg viss um að það kemur í framhaldi af þessu.

Ég hef víst ekki tíma til að svara fleiru sem fram kom hjá hv. þingmanni.