137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[18:49]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka það fram að ég þakka kærlega fyrir að þetta mál skuli vera komið fram. Ég er mjög ánægð með það og studdi einmitt eindregið minnihlutastjórnina í þeim fyrirætlunum sínum fyrir kosningar að breyta stjórnarskránni hvað þetta varðar. Mér heyrist á hæstv. forsætisráðherra að hún hyggist hugsanlega leggja fram þá breytingu á stjórnarskránni að hægt verði að fara í þess háttar breytingar og jafnvel gera þjóðaratkvæðagreiðslu bindandi fyrir þingið að einhverju leyti.

Ég mundi gjarnan vilja fá svar við spurningu minni um það hvað henti í þjóðaratkvæði og eins þegar við heyrum fullyrðingar um að við treystum ekki þjóðinni til að taka ákvarðanir um svona flókin mál hvort það geti hugsanlega verið einhverjar ákveðnar efasemdir um gáfnafar þjóðarinnar. En síðan eru ýmsir sem kannski hafa velt fyrir sér hvort ekki geti vel verið að aðild að Evrópusambandinu sé töluvert flóknara mál en einmitt það hvort við eigum að skrifa undir Icesave-samninginn og samþykkja ríkisábyrgðina.