137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[19:47]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Því miður auðnaðist okkur ekki að ná saman um það á síðasta þingi að samþykkja ákvæði sem hefðu auðveldað okkur aðferðir við að breyta stjórnarskránni án þess að rjúfa þing og ganga til kosninga. Okkur auðnaðist heldur ekki — og það var allt of lítið um það fjallað, þ.e. ákvæðið í 3. gr. í þessu frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem ég nefndi áðan. Þar var ákvæði um að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin lög eða málefni sem varða almannahag. Ef það frumvarp hefði verið samþykkt hefðum við verið að tala um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. En við stöndum bara frammi fyrir þessum hlut núna að það er ekki bindandi og það þurfa — alveg eins og mér fannst hv. þingmaður ýja að — að fara fram tvær þjóðaratkvæðagreiðslur ef við göngum í Evrópusambandið. Fyrst er það atkvæðagreiðsla um hvort fólk vilji samþykkja þau drög sem við náum fram og síðan þarf, eins og hv. þingmaður nefndi, varðandi þetta fullveldisafsal sem við þurfum — af því að við erum ekki með aðferðir hér til að breyta stjórnarskránni. Við náðum því ekki í gegn — og þess vegna þarf í lokin að breyta stjórnarskránni og rjúfa þing.

En af því að við erum að tala um fjárskuldbindingar, þjóðréttarskuldbindingar og Icesave þá held ég að það megi alveg líkja þessu við fjárlög þar sem eru ákveðnar fjárskuldbindingar. Engum mundi detta í hug að setja fjárlögin í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við erum að tala um ákveðnar fjárskuldbindingar að því er varðar Icesave. Ég held að það megi alveg jafna þessu saman enda var þetta undanþegið í 3. gr. frumvarpsins sem við fjölluðum um á liðnu þingi.

Varðandi það hvort þjóðaratkvæðagreiðslum muni fjölga þá er ég alveg sannfærð um að þeim muni fjölga, ekki síst ef fólkið sjálft fær réttinn til þess að koma á þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta eru miklar lýðræðisumbætur fyrir fólk og mikil lýðræðisréttindi sem fólkið fengi með þessu. Ég er alveg viss um það að stjórnlagaþing (Forseti hringir.) mun örugglega leggja til slík ákvæði.