137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[19:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er alveg rétt sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra að það var möguleiki í vor að samþykkja hér á þingi breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar sem hefðu falið það eitt í sér hvernig ætti að breyta stjórnarskránni. Það hefði auðveldað núna þá vinnu meðal annars sem er í tengslum við ESB-málið.

Ég bind vonir við það í ljósi orða hæstv. forsætisráðherra sem talaði aftur um mikilvægi bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu — ég greindi það í hennar máli að hún hefði óskað þess að sú breyting hefði átt sér stað á 79. greininni af því að þá hefðum við talað um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrst svo er þá hlýtur forsætisráðherra að beita sér fyrir því að við fáum raunverulega bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem viljinn er hjá fólkinu. Fyrst hæstv. forsætisráðherra er ekkert sérstaklega hlynnt því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar þá þarf ekki þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr en það er búið að breyta stjórnarskránni. Það þarf ekkert endilega þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn fyrr en að kosningum loknum. Það er hægt að hafa ferlið þannig að það verði komið heim þá með hugsanlegan samning, þingið tekur ákvörðun um hann, það verða kosningar um stjórnarskrána, nýtt þing kemur saman og síðan verði þjóðaratkvæðagreiðsla og þá bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Mér finnst það vera algjört lykilatriði í þessu stóra máli að þjóðin virkilega, ekki hafi það bara á tilfinningunni, heldur viti það og gangi að því gefnu að hún hafi hið raunverulega vald þegar kemur að málefnum Evrópusambandsins og hvort við förum inn eða verðum áfram úti. Mér finnst þetta vera mjög þýðingarmikið atriði en vil um leið þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hennar svör í þessu máli sem við báðar getum þá verið sammála um að er mikilvægt að hljóti hér mjög góða og málefnalega afgreiðslu.