137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB -- peningamálastefnan -- lán frá Norðurlöndum.

[13:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil beina máli mínu til hv. þm. Ásmundar Daðasonar sem hefur vakið athygli fyrir skörulega framkomu og ákveðnar skoðanir í hinum ýmsu málum. Ég fylgdist með eins og kannski hv. þingmaður þegar formenn okkar skiptust hér á skoðunum um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar nefndi hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri grænna, að það væri lítið mál að hafa ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu ef forustumenn flokkanna lofuðu því bara að þingmenn þeirra mundu síðan greiða atkvæði eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Það þýðir með öðrum orðum að ef sú yrði raunin og ef við gefum okkur að meiri þjóðarinnar mundi komast að þeirri niðurstöðu í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu að við ættum að ganga í Evrópusambandið og hv. þm. Ásmundur Daðason yrði kosinn á þing aftur eftir næstu kosningar þyrfti hv. þm. Ásmundur Daðason að greiða atkvæði samkvæmt línu formannsins, með aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta nokkuð sérstakt. Það rifjaðist upp fyrir mér nokkuð sem við þingmenn erum búin að lofa að hlíta, stjórnarskráin, en þar segir, virðulegi forseti, í 48. gr.:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Hér stendur að vísu ekkert um formanninn, hæstv. fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon, en ég vildi bara spyrja hv. þm. Ásmund Daðason: Mundi hann greiða atkvæði með því hér á þingi (Forseti hringir.) að Ísland færi í Evrópusambandið ef þjóðaratkvæðagreiðslan færi á þann veg?