137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB -- peningamálastefnan -- lán frá Norðurlöndum.

[13:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að blanda mér inn í vaxtakjör norrænu lánanna. Eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson talaði um ræddum við framsóknarmenn mjög við ríkisstjórnina á mánudaginn var þar sem það var upplýst af hæstv. fjármálaráðherra að skrifað yrði undir lánið í dag og vaxtakjörin líka gerð opinber.

Ég er svo heppin að ég virðist vera á póstlista ríkisstjórnarinnar því að ég fékk fréttatilkynningu um þetta um leið og fjölmiðlarnir fyrir hádegið og þá sá ég að þar voru ekki tilgreind vaxtakjör þannig að ég las það ekki á mbl.is eins og hv. þingmaður lýsti hér áðan.

Nú hefur varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Björn Valur Gíslason, tjáð okkur að lánin eru með 3,85% vöxtum, breytilegum, þ.e. sem standa í 3,85% miðað við gengi dagsins í dag. Þetta er afar athyglisvert þar sem lánin eru tekin til 12 ára. 12 ára lán á breytilegum vöxtum eru ein stór óvissa eins og alþjóð veit þar sem við búum við mesta óöryggi á fjármálamörkuðum sem um getur í fleiri áratugi. Ég minni þingheim á uppsagnarákvæði í Icesave-samningnum sem hljóðar svo að fari einhver lán íslenska ríkisins yfir 5,55% vexti eins og Icesave-lánið gengur út á er hægt að gjaldfella samninginn eða semja upp á nýtt þannig að Bretar og Hollendingar fái þá þau kjör sem erlenda lánið er í á þeim tíma.

Að semja um 12 ára lán frá Norðurlandaþjóðunum með breytilegum vöxtum er eins og allt annað sem þessi ríkisstjórn kemur nálægt, þetta er ábyrgðarleysi. Ríkisstjórnin veit ekkert hvað hún er að gera, þetta ber vott um örvæntingu. Norska lánið fer til íslenska Seðlabankans, hin lánin til ríkisins. Það er ekki einu sinni til fjárveitingaheimild frá þinginu fyrir þessu því að frumvarpið um fjárveitingar fyrir þessum lánum var hér til umræðu á mánudaginn.

Ég bið fólk um að fara ekki fram úr sér í þessu og ég vara (Forseti hringir.) ríkisstjórnina við þeirri braut sem hún er á því að þau virðast ekkert vita hvort þau eru að fara norður, suður — eða niður eins og ágætur þingmaður sagði um daginn.