137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB -- peningamálastefnan -- lán frá Norðurlöndum.

[13:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að það er orðið frekar þreytandi að hlusta á þennan sjálfumglaða hv. þm. Árna Þór Sigurðsson sem kemur hér þjakaður af tveggja ára þingreynslu og kennir okkur öllum hvernig við eigum að haga okkur undir þessum dagskrárlið eða öðrum. Hann setur ekki aðeins ofan í við okkur heldur tók hann formanninn sinn fyrir og kenndi honum ýmislegt í leiðinni. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson verður bara að lifa með því að hér ræða menn hlutina. Hér er ekki um smámál að ræða. Hér sagði hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri grænna, að það væri ekkert mál með þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, við þyrftum engu breyta. Við mundum bara hafa hana ráðgefandi og lofa því að þingmenn mundu greiða atkvæði í kjölfarið, alveg eins og niðurstaða þessarar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu yrði.

Fljótt á litið get ég ekki séð að það samræmist stjórnarskránni. Mér þótti eðlilegt, og lái mér hver sem vill, að spyrja einn þingmann sem er með mjög ákveðnar skoðanir sem eru svo sannarlega ekki í samræmi við það að Ísland mundi ganga í Evrópusambandið hvernig hann mundi greiða atkvæði. Ég spurði einfaldlega hv. þingmann sem hefur að vísu ekki enn þá svarað hvort hann yrði við þessu. Mundi hv. þm. Ásmundur Daðason fara þvert gegn eigin sannfæringu, þvert gegn stjórnarskránni og greiða atkvæði með aðild Íslands að Evrópusambandinu ef formaður hans væri búinn að lofa því í aðdraganda ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu?

Það má vel vera, virðulegi forseti, að þessi spurning fari gríðarlega í taugarnar á hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni (Gripið fram í.) og þá má það bara vera svo. Ég held samt að allir, sérstaklega kjósendur Vinstri grænna sem kusu þá kannski flestir út af afstöðu þeirra til Evrópusambandsins, eigi (Forseti hringir.) heimtingu á að fá að vita frá hv. þm. Ásmundi Daðasyni og öðrum hvort þeir muni haga sér með þessum hætti. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan fá svar frá hv. þm. Ásmundi Daðasyni.

(Forseti (SF): Ég bið hv. þingmenn að virða ræðutímann.)