137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB -- peningamálastefnan -- lán frá Norðurlöndum.

[13:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja aðeins á að koma inn á þetta þar sem síðasti ræðumaður endaði. Sú framkoma sem sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra sýnir þjóðinni með yfirlýsingum sínum um þetta Icesave-mál og þjóðaratkvæðagreiðslur er vitanlega með ólíkindum. Það er mjög sérstakt að hann ætli sér að ákveða um hvað þjóðinni er treystandi til að kjósa og hvað ekki.

Ég túlka það þannig að mat hans sé á þann veg að þjóðin muni hafna þessum samningi. Ég veit að þjóðin mun gera það því að þetta er afleitur samningur eins og hann lítur út. Því er ekkert óeðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra sé mjög hræddur við að fara þessa leið af því að hann veit að þjóðin mun hafna þessu. Hins vegar hafa ekki komið nein haldbær rök fyrir því að fara ekki þá leið.

Aðeins varðandi það sem hv. þm. Illugi Gunnarsson spurðist fyrir um áðan. Það er deginum ljósara að blessuð ríkisstjórnin okkar á í mjög miklum vandræðum með að endurskoða peningamálastefnuna og að ná utan um þær heildaraðgerðir sem þarf að fara í. Það er því ósköp eðlilegt að kallað sé í þingsal á einhverjar skýringar á því hvernig staðan er, hvað menn eru að fara og á hvaða vegferð ríkisstjórnin er á þeim vettvangi.

Varðandi þau lánakjör sem hv. þm. Björn Valur Gíslason upplýsti áðan þakka ég honum fyrir að hafa upplýst um þessa hluti því að svo sannarlega hefur hans ágæti formaður, hæstv. fjármálaráðherra, ekki lagt sig í líma við að upplýsa þingið um lánakjör eða annað sem viðkemur lánum til þjóðarinnar, Icesave-samningum eða öðru.

Ég ítreka það sem kom fram hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur áðan, lánið er til langs tíma á breytilegum vöxtum og ef þeir vextir verða hærri en á lánunum frá Bretum og Hollendingum geta þeir gjaldfellt þann samning verði hann samþykktur — sem má ekki verða.