137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB -- peningamálastefnan -- lán frá Norðurlöndum.

[13:59]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég held að mér sé nauðugur sá kostur að verja íslenska fjölmiðlamenn úr ræðustól Alþingis þar sem þeir geta ekki varið hendur sínar hér. Ég hef ekki þá trú að mbl.is hafi vísvitandi verið að blekkja almenning með fréttaflutningi sínum því að rétt eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir benti á stóð ekkert um það í tilkynningu frá ríkisstjórninni hver vaxtakjörin væru. Þegar menn tala um traust gagnvart fjölmiðli eins og mbl.is held ég að það sé meira traust á mbl.is en ríkisstjórninni sjálfri í þessu landi í dag, enda er það ekkert óeðlilegt þegar svona misvísandi skilaboð koma frá stjórninni í máli sem þessu.

Við erum að tala um 318 milljarða kr. Þetta eru fjármunir sem þjóðin mun á endanum þurfa að greiða. Þetta er ekki einkamál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eða Samfylkingarinnar. Við ætlum að búa í þessu landi eftir sjö ár þegar hv. þingmenn tala um þetta skjól, þegar Icesave-skuldirnar munu dynja á landsmönnum. Þetta er ekki einkamál þessara tveggja flokka, langstærstur hluti þjóðarinnar er algjörlega andvígur samningnum eins og hann lítur út, þessum Icesave-samningi, og ég vona að þjóðin muni ekki búa lengi við stjórnvöld sem þessi sem hlusta ekkert á ráðleggingar sérfræðinga úti í samfélaginu, hvað þá á þjóðina sjálfa, og snupra svo í þokkabót íslenska fjölmiðlamenn sem eru að reyna að koma skilaboðum til almennings í landinu þrátt fyrir oft og tíðum mjög misvísandi skilaboð frá ríkisstjórninni sem oft er erfitt að skilja.