137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

fjáraukalög.

50. mál
[14:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um fjáraukalög, hvort ráðherrann hyggist leggja fram frumvarp til fjáraukalaga á sumarþingi í ljósi breytinga á forsendum tekju- og útgjaldaliða fjárlaga. Vissulega hafa forsendur fjárlaga ársins 2009 gjörbreyst og það viðurkenna allir. Síðast þegar ég vissi, og ég vona að skilningur hæstv. ráðherra sé sá sami, kom fjárveitingavaldið frá Alþingi Íslendinga.

Nú höfum við verið að störfum á sumarþingi í allmargar vikur og það hefði verið hægur vandi fyrir hæstv. ríkisstjórn að leggja fram á sumarþingi fjáraukalagafrumvarp sem gæfi raunsannari mynd af stöðu ríkisfjármála en það fjárlagafrumvarp sem nú var unnið að. Mér hefur í raun og veru einnig sýnst sem ríkisstjórninni veitti ekki af allri aðstoð á erfiðum tímum, til að mynda í ríkisfjármálum, og þess vegna er stórundarlegt að ríkisstjórnin skuli ekki hafa leitað til fjárlaganefndar, til alþingismanna, við vinnslu á fjáraukalagafrumvarpi á þessu ári. Eða er verkefnið svo auðvelt að einn fjármálaráðherra og ein ríkisstjórn eigi að hafa það umfangsmikla verk með höndum sem þessi endurreisn er eða koma þessi mál hv. Alþingi ekkert við? Það er með ólíkindum að horfa á vinnubrögð ráðherranna í máli eftir mál þar sem við þingmenn heyrum um það í fjölmiðlum hvað hæstv. ráðherrar ætla sér að gera.

Nær ekkert samráð hefur verið haft í veigamiklum málum við Alþingi Íslendinga, hvað þá stjórnarandstöðuna. Svo eru menn undrandi á því að ekki gangi betur í ríkisfjármálum og almennt að reisa okkur við í þessum erfiðleikum þegar við horfum á þá nöturlegu staðreynd að samráðið er mjög takmarkað, a.m.k. við okkur þingmenn í stjórnarandstöðunni. Margir þingmenn sem eiga sæti á Alþingi hafa ágætisþekkingu á ríkisfjármálum og ágætisþekkingu á málefnum samfélagsins í heild sinni. Það er því alveg grátlegt að fjárlaganefnd Alþingis skuli á þessum dögum og vikum ekki fara yfir grunnforsendur fjárlaga ársins 2009, gera jafnvel á þeim breytingar því að breytinga er þörf, vissulega, bæði á útgjaldahlutanum og tekjuhlutanum.

Það er eðlilegt að við spyrjum hæstv. fjármálaráðherra hvort honum sé alvara með það að leita ekki til fjárlaganefndar Alþingis, til Alþingis Íslendinga sem fer með fjárheimildir í íslensku samfélagi og ræður í raun og veru ríkissjóði, hvort ekki standi til að leggja fram fjáraukalagafrumvarp sem við getum unnið í þessa dagana og hefðum í raun og veru átt að vera byrjuð á fyrir löngu.