137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

fjáraukalög.

50. mál
[14:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir tilboð um aðstoð og áhuga á að leggja sitt af mörkum í þessum efnum. Það er vel. Það skiptir miklu máli að löggjafar- og framkvæmdarvaldið geti unnið vel saman að þeim erfiðu úrlausnarefnum sem nú er við að fást á sviði ríkisfjármála sem og mörgum öðrum.

Alþingi hefur afgreitt og gert að lögum bandorm um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 2009. Sömuleiðis var í gær rædd hér skýrsla um aðgerðaáætlun í ríkisfjármálum og þar koma fram meginatriðin um bæði breytingar á tekju- og útgjaldahlið í ár og reyndar á næsta ári. Sú skýrsla hefur nú gengið til fjárlaganefndar þannig að ég leyfi mér að fullyrða að fjárlaganefnd Alþingis og fleiri þingnefndir, eins og efnahags- og skattanefnd, hafa núna haft með höndum meiri upplýsingar um stöðu ríkisfjármálanna á þessu ári en endranær. Það hefur auðvitað verið fundað um þá hluti í aðdraganda þess að stöðugleikasáttmáli var gerður og að bandormur um ríkisfjármál kom fram, m.a. í hv. fjárlaganefnd.

Í bandorminum eru fullnægjandi lagaheimildir, bæði til tekjuöflunar og útgjaldabreytinga innan ársins, þeirra sem sjálfstæðra lagabreytinga krefjast. Að öðru leyti er það afstillingarmál í fjáraukalögum, og svo lokafjárlögum þegar þar að kemur, að færa t.d. inn í fjárlögin þau sparnaðaráform sem nú liggja fyrir og búið er að útdeila á ráðuneyti. Málið á að liggja nokkuð skýrt fyrir og Alþingi á að hafa um það greinargóð gögn, enda er það rétt og skylt. Ekki er gert ráð fyrir að fjáraukalagafrumvarp komi fram fyrr en í haust með hefðbundnum hætti, enda allar lagaheimildir til staðar sem þarf til að gera nauðsynlegar breytingar innan fjárlagaársins eins og áður hefur komið fram.

Það er komið fram í júlí og það er kannski ekki stór munur á því hvort fjáraukalagafrumvarp væri til umfjöllunar í júlímánuði eða að það birtist mönnum í byrjun október eins og venjan er.

Þetta er staða málsins og ég vona að þetta svar sé fullnægjandi hvað varðar hv. þingmann, þ.e. að hann hafi fengið þær upplýsingar sem hann bað um, hvort sem honum líka þær eða ekki.