137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

fjáraukalög.

50. mál
[14:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem fer fram í sambandi við fjáraukalög og verð að segja fyrir mína parta að ég hefði talið mun skynsamlegra að menn hefðu lagt fram fjáraukalagafrumvarp áður en menn samþykktu bandorminn. Ég er nánast fullviss um að fjárlög þessa árs munu ekki standast.

Á fundi fjárlaganefndar þar sem við fórum með ráðuneytunum og stofnunum, ráðuneytunum sérstaklega, yfir fjármálin kom fram hjá mörgum þeirra að í fyrsta lagi reiknuðu þau með að færa fjárheimildir á milli ára, frá 2008 til 2009, og eins gerðu mörg ráðuneyti ráð fyrir því að koma með fjáröflun. Nú eru það skilaboð frá ríkisstjórninni að hvorugt þetta gangi þannig að það er algerlega útséð um það að mínu viti að það muni standast. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa úr skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom út á dögunum. Þar stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun telur verulegar líkur á að fjárlög ársins 2009 haldi hjá 28 af þessum 50 stofnunum en ekki að óbreyttu hjá 12 þeirra. Nú í lok júní telur Ríkisendurskoðun ómögulegt að segja til um (Forseti hringir.) hvort fjárlög munu halda hjá 10 stofnunum.“

Ég tek undir með þeim sem segja að það er gríðarlega mikilvægt að fjáraukalagafrumvarp verði lagt (Forseti hringir.) fram hið fyrsta.