137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

fjáraukalög.

50. mál
[14:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu. Réttilega benti hæstv. ráðherra á að venjan væri sú að taka fjáraukalagafrumvarp til afgreiðslu á haustmánuðum, það væri venjan. Staðreyndin er sú að við lifum á mjög óvenjulegum tímum, tímum þar sem álagið á ríkisstjórnina er óneitanlega gríðarlega mikið. Við komum saman hér í maímánuði og nú er kominn júlí. Það hefði verið hægt að leggja fram mun fyrr en nú í júlímánuði fjáraukalagafrumvarp og þannig hefðu kraftar hv. þingmanna, hvort sem þeir eru í meiri hluta eða minni hluta, í störfum sínum, meðal annars í fjárlaganefnd, nýst betur en ella á þessu þingi. Að sjálfsögðu á fjárlaganefndin að taka miklu meiri þátt í gerð fjárlaga og þá sérstaklega fjáraukalaga. Ég held að það hefði verið betra fyrir ríkisstjórnina að hafa stuðning fjárlaganefndarinnar núna á síðustu vikum við að taka mjög erfiðar ákvarðanir í ríkisfjármálum. Ég tala hér sem fyrrverandi fjárlaganefndarmaður. Ég tel að við þurfum að gera miklar breytingar á þessu, ekki síst í ljósi óvenjulegra aðstæðna í íslensku samfélagi. Því vil ég í fullri vinsemd hvetja hæstv. ráðherra til að nýta sér þingið betur. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn til þess að eiga betra samstarf við okkur alþingismenn því að á þessum tímum sem við lifum þurfum við að standa saman. Við þurfum að kafa sameiginlega ofan í mál. Það er alveg augljóst að hæstv. ríkisstjórn, hversu vel sem hún er nú mönnuð, ræður ekki við verkefnið eins og það er núna. Þess vegna væri hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn akkur að leita meira til Alþingis Íslendinga þaðan sem raunverulegt fjárlagavald kemur og þaðan sem ríkisstjórnin sækir sitt umboð.