137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

bílalán í erlendri mynt.

60. mál
[14:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra um bílalán í erlendri mynt, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Hversu margir einstaklingar eru með erlend lán þar sem bifreið viðkomandi er sett að veði?

2. Hversu há eru þessi lán?

3. Hversu mikil verðmæti liggja í hinum veðsettu bifreiðum?

4. Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að aðstoða þá einstaklinga sem skulda bílalán í erlendri mynt?

Ég held að það sé ekki vanþörf á að inna hæstv. ráðherra eftir því hér hvort hann og hans ráðuneyti séu að vinna að því að koma til móts við þúsundir íslenskra fjölskyldna sem voru svo ólánssamar að fjármagna bifreiðakaup sín með því að skuldsetja sig í erlendri mynt. Flest af því fólki og nær allt væntanlega er reglufólk sem gerði sín plön samkvæmt því að hér yrði ekki algjört hrun í íslensku viðskiptalífi og að krónan mundi veikjast um eins mikið og raun ber vitni. Eins og staðan er núna hafa bílalán margfaldast hjá þúsundum fjölskyldna. Í ofanálag horfum við fram á stóraukið atvinnuleysi og tekjuskerðingu í íslensku samfélagi þannig að það er alveg ljóst að við þurfum að gera eitthvað, við þurfum að grípa til einhverra aðgerða til þess að aðstoða þessar fjölskyldur.

Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því meðal annars að aðstoða þessar fjölskyldur með leiðréttingu húsnæðislána um 20%, en við hæstv. ráðherra erum að mér hefur sýnst innilega ósammála í þeim efnum. En ég trúi því ekki að við séum ósammála um að við þurfum að leita leiða til þess að grípa til aðgerða til þess að lækka skuldir íslenskra heimila eins og staða mála er í dag. Ég mundi vilja sjá þar sérstaklega horft á myntkörfulánin sem hafa hækkað gríðarlega síðustu missirin.

Það verður því mjög fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra sérstaklega hversu umfangsmikill þessi vandi er því að í störfum okkar hér í sumar held ég að hver einasti alþingismaður hafi fengið tölvupóst þessa efnis frá fólki sem er að sligast undan meðal annars þessum bílalánum sem ég spyr hér um. Því er mikilvægt að við notum þessa daga á Alþingi sem eftir eru til að ræða mál sem þetta. Vonandi berum við gæfu til þess að grípa til einhverra aðgerða þannig að hægt verði að aðstoða þær þúsundir fjölskyldna sem glíma við mjög erfið vandamál í dag og það er mjög dýrt að bíða í þeim efnum og við þurfum að grípa þess vegna til viðeigandi aðgerða til þess að koma til móts við erfiða stöðu þessara heimila.