137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

bílalán í erlendri mynt.

60. mál
[14:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst alltaf jafnathyglisvert að heyra hæstv. ráðherra tala um skuldir heimilanna og skuldir fólksins í landinu eins og þær séu svona frekar léttvægar, vel viðráðanlegar eða að ekki þurfi að hafa stórar áhyggjur af þeim, því að þegar safnast saman eru þetta vitanlega stórmál. Miðað við þær tölur sem hæstv. ráðherra upplýsti hér er umfang þessara bílalána vitanlega gríðarlegt.

Það er þó huggun fyrir ráðherra hugsanlega og hæstv. ríkisstjórn að bílainnflutningur hefur dregist mikið saman og um leið lánveitingar í erlendri mynt til bifreiðakaupa. Hins vegar virðast menn horfa fram hjá því að þann gjaldeyri sem við settum í bílakaup áður þarf nú að nýta sem aldrei fyrr í að kaupa lyf, kaupa olíu, kaupa hráefni til framleiðslu á vörum og þess háttar en það er nákvæmlega sá sami gjaldeyrir sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórn ætla að nota til að borga af Icesave-lánunum. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig það gangi upp að nota sömu peningana tvisvar í þessu tilviki.