137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

bílalán í erlendri mynt.

60. mál
[14:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er fagnaðarefni að fyrirspurn hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar skuli hafa orðið til þess að nú liggi fyrir í viðskiptaráðuneytinu loksins upplýsingar um þetta gríðarlega mikilvæga mál. Ég held að þessi fyrirspurn hafi líka orðið til þess vonandi að hæstv. viðskiptaráðherra geri sér grein fyrir einni af fjölmörgum villum í eigin málflutningi um Icesave-samkomulagið. Það er deginum ljósara að slík gríðarleg skuldbinding í erlendri mynt, þar sem ekkert kemur á móti, mun veikja gengið. Ein af rökum ráðherrans fyrir því að þau áhrif ættu ekki að vera svo mikil voru þau að eignir á móti væru í erlendri mynt. En hvaða eignir eru þetta? Þetta eru eignir að mestu leyti á Íslandi í erlendri mynt svoleiðis að falli gengi krónunnar verða lánin miklu, miklu hærri og erfiðara að borga. Fleiri lenda í því að geta ekki greitt. Minna skilar sér inn í Landsbankann og svo koll af kolli svoleiðis að þessi rök hæstv. ráðherra eins og svo mörg önnur í þessu máli fá ekki staðist.