137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

bílalán í erlendri mynt.

60. mál
[14:31]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég held, eftir að hafa heyrt tölur frá hæstv. viðskiptaráðherra loksins um þessi mál, að engan veginn sé hægt að gera lítið úr vandanum. Hann er greinilega mjög yfirgripsmikill. Um 40 þúsund bifreiðaeigendur í landinu skulda í erlendri mynt. Ef ég heyrði tölurnar rétt verja yfir 20% heimila yfir 20% ráðstöfunartekna í að greiða af þessum lánum. Það hefur verið bent á að forsendubrestur varð á lánamarkaði.

Nú langar mig hins vegar að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann sjái ekki rök fyrir því í ljósi þess að verið er að leggja vaxandi byrðar á almenning með skattahækkunum, að við notum tækifærið við endurskipulagningu bankakerfisins og komum til móts með almennum aðgerðum við það fólk sem hefur orðið fyrir þessum forsendubresti og leitað verði allra leiða til þess að minnka afborganir og höfuðstól lána hjá þessu fólki. Það mun hafa örvandi áhrif á hagkerfið og það er svo sannarlega það (Forseti hringir.) sem við þurfum í þessu árferði.