137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

bílalán í erlendri mynt.

60. mál
[14:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim sem tóku þátt í þessari umræðu. Svörin bera það með sér að vandi heimilanna vegna bílalána er gríðarlegur.

Í þessu samhengi vil ég benda þingheimi á það sem allir vita að hrunið byrjaði ekki í gær. Við framsóknarmenn lögðum fram tillögur í efnahagsmálum í febrúarmánuði hér á Alþingi sem því miður hafa ekki hlotið mikinn hljómgrunn og í raun hefur staðan versnað dag frá degi síðan þá. Þess vegna kemur mér það á óvart að starfshópur sem á að skoða sérstaklega stöðu þessara einstaklinga sem skulda 115 milljarða kr. skuli fyrst hafa komið saman í gær. Í raun finnst mér að ríkisstjórnin þurfi að fara að slá í til þess að koma til móts við erfiða fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja.

Ég ítreka þá fyrirspurn sem fram kom hér hvort hæstv. ráðherra sjái enga þörf á því að ráðast að vandanum með almennum aðgerðum þannig að við getum farið að lækka skuldir íslenskra heimila því að eins og var bent á hér í umræðunni er verið að auka byrðarnar á heimilin. Það er verið að hækka skattana. Það er mikið atvinnuleysi og skuldirnar hafa hækkað gríðarlega. Þetta dæmi gengur einfaldlega ekki upp að mati okkar framsóknarmanna. Við höfum talað fyrir því um margra mánaða skeið að það þurfi að fara í almennar aðgerðir.

Nú er ég ekki að segja það, frú forseti, að þessir 40.414 einstaklingar sem skulda erlend lán séu allir í mjög erfiðum málum. En ég fullyrði það, frú forseti, að þúsundir einstaklinga af þessum 40.414 sem skulda erlend lán eru í mjög erfiðum málum. Það fólk kallar eftir aðgerðum. Við framsóknarmenn gerum það líka og ég bið því hæstv. viðskiptaráðherra að flýta vinnu (Forseti hringir.) þessa hóps þannig að við getum komið til móts við erfiða stöðu þeirra sem skulda erlend bílalán.