137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálaráðgjöf á landsbyggðinni.

71. mál
[14:39]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu fyrirspurn um mjög brýnt mál. Þetta er mál sem við höfum allnokkuð rætt í ráðuneytinu frá því að ég kom þar inn og velt upp ýmsum kostum.

Eins og þingheimur veit hefur þjónusta Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna verið stórefld frá hruni, starfsmannafjöldinn þrefaldaður og áframhaldandi starfsemi stofnunarinnar með þeim hætti sem nú er tryggð út þetta ár. Þetta hefur náðst með ágætu samstarfi við viðskiptabankana og Íbúðalánasjóð og ber að þakka það góða samstarf.

Þjónusta Ráðgjafarstofunnar felst annars vegar í persónulegri ráðgjöf á staðnum en að stórum hluta einnig í ráðgjöf í gegnum síma og með rafrænum samskiptum. Sú þjónusta nýtist auðvitað jafnt á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Það hefur einnig fram til þessa verið þannig að póstsendar umsóknir til Ráðgjafarstofu hafa verið teknar fram fyrir umsóknir þeirra sem mæta í viðtöl og landsbyggðin hefur notið góðs af því verklagi þannig að umsóknir utan af landi hafa verið teknar fram fyrir, sérstaklega á þeim tíma þegar biðröð var allnokkur eftir viðtölum á höfuðborgarsvæðinu. Um leið og umsókn berst frá landsbyggðinni er strax haft samband við umsækjanda símleiðis eða með tölvupósti og það hefur verið mjög lítið um kvartanir af landsbyggðinni vegna þessa fyrirkomulags.

Við höfum hins vegar verið að horfa til þess hvernig við getum eflt þjónustu við landsbyggðina. Við höfum til dæmis velt upp þeim möguleika að nota bankaútibú í því sambandi. Það er hins vegar sá galli þar á að hlutleysi Ráðgjafarstofunnar er mikilvægt og tryggja þarf að ekki sé litið svo á að hún sé að ganga erinda lánveitenda fremur en skuldara. Þess vegna höfum við átt nokkuð erfitt með að vinna frekar þá hugmynd alla vega nú fyrst um sinn. Við höfum verið að fara yfir þetta með sveitarfélögum og þá einkanlega þremur stærstu vaxtarsvæðunum á landsbyggðinni. Það eru kannski þrjú sveitarfélög sem hægt er að segja að séu í nokkuð sérstakri stöðu ásamt höfuðborgarsvæðinu. Það er Akureyri, það er Hérað og Fjarðabyggð þar sem umsvifin hafa verið mest á undanförnum árum og þar af leiðandi skuldsetning mest. Þess vegna má segja að vandinn hjá fjölskyldum á þessum svæðum sé almennt meiri en annars staðar á landinu einfaldlega vegna þess að góðærið skilaði sér ekki til landsbyggðarinnar með sama hætti og það skilaði sér í ofþenslunni á höfuðborgarsvæðinu og kannski á þessum vaxtarsvæðum. Blessunarlega hefur fólk því ekki skuldsett sig í eins miklum mæli á svæðunum utan þessara þriggja svæða, á landsbyggðinni.

Við höfum verið í viðræðum við forsvarsmenn þessara þriggja sveitarfélaga um sérstakar lausnir þar. Bæjarstjórar tveggja þeirra hafa viðrað við mig nokkrar hugmyndir. Ég bíð enn eftir formlegu erindi frá þeim. Þeir eru að útfæra hugmyndir sem þeim eru þóknanlegar og hafa um það samráð sín á milli. Við munum auðvitað fara vandlega yfir þær þegar þær koma fram.

Að öðru leyti hefur málafjöldinn ekki verið slíkur að við höfum talið forsvaranlegt að setja upp nýjar útstöðvar. En auðvitað þurfum við að hafa það til stöðugs endurmats og stöðugrar endurskoðunar. Því er heldur ekkert á móti mælt að við hljótum að horfa þá til þess ef á þarf að halda að bæta enn frekar í að leita samstarfs við bankana á þeim svæðum þá þar sem frekari aðgerða væri þörf. En ég ítreka að ekkert er fast í hendi í þessum efnum. Við tókum þá ákvörðun á sínum tíma að auka mjög umsvif Ráðgjafarstofunnar til þess að mæta tímabundnu álagi. Við vitum ekkert hvernig hið tímabundna álag mun þróast á næstu mánuðum og við munum einfaldlega hafa viðbúnaðinn til stöðugs endurmats og reyna að tryggja öllum landsmönnum góða og tímanlega þjónustu.