137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálaráðgjöf á landsbyggðinni.

71. mál
[14:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum eins og fyrr og síðar að ræða um þann endalausa ósið ríkisvaldsins að þegar nýrri starfsemi er komið á fót er hún sett niður umhugsunarlítið á höfuðborgarsvæðinu og síðan þarf að taka það mál sérstaklega upp þegar menn velta því fyrir sér hvort það eigi að staðsetja álíka þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.

Það er alveg rétt sem hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sagði að auðvitað er verið að reyna að sinna þörfum fólksins á landsbyggðinni í gegnum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og það er örugglega gert með vönduðum og góðum hætti. En þetta er, eins og hæstv. ráðherra sagði, miðlæg þjónusta. Hún er rafræn. Þess vegna er þetta þjónusta af því taginu sem vel má koma fyrir á landsbyggðinni. Ég eins og aðrir þingmenn hér hvet hæstv. ráðherra til að endurskoða þessi mál með það fyrir augum að færa þessa starfsemi út á landsbyggðina. Ég vil í því sambandi sérstaklega vekja athygli á starfsemi sýsluskrifstofanna sem eru úti um allt land, sem eru umboðsmenn framkvæmdarvaldsins í héraði og eru sérstaklega vel til þess fallnar að halda utan um svona þjónustu. Á sama tíma og talað er um að veikja þjónustu sýslumannanna úti á landi eins og boðað hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) þá væri eðlilegra að styrkja hana með því að færa þessi verkefni út til sýsluskrifstofanna.