137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálaráðgjöf á landsbyggðinni.

71. mál
[14:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur verið uppbyggjandi og málefnaleg og þeim sem hér hafa staðið í pontu til fyrirmyndar.

Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson ræddi um þann ósið sem tíðkast í þjónustu ríkisins og hefur verið við lýði um langt árabil að mínu viti og væntanlega hans, að þjónustustigið byrjar í Reykjavík og fer síðan út um landið ef með þarf, nánar tiltekið ef fólk kvartar nógu mikið. Að mínu viti hefur ríkisvaldinu og hinu opinbera tekist að búa til tvær deildir — að vísu ekki kenndar við neitt fyrirtæki enn þá — en það eru fyrsta deild og önnur deild í þjónustu hins opinbera. Þetta á að heita ólíðandi á mannamáli vegna þess að við erum öll að borga sömu skattana og skyldurnar til hins opinbera og eigum að fá í samræmi við það sömu þjónustuna hvar svo sem við búum.

Ég met hins vegar svar hæstv. ráðherra og tek eftir því að þjónustan er eðlilega í samræmi við þarfirnar og það hefur verið skoðað vel að koma til móts við þær þarfir. Jafnframt tek ég undir það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði að fljótlega mun væntanlega koma á borð til okkar vandi sparisjóðsfólks víða um landið og það þarf að taka á honum.

Hér hafa komið margar góðar hugmyndir fram og ég vænti þess að hæstv. ráðherra taki þær til skoðunar, hvort heldur menn hafi rætt um aðkomu sýslumanna, skattsins, verkalýðsfélaga eða það sem nefnt var undir restina, samstarfs ríkis og sveitarfélaga sem ég held að sé af hinu góða og geti komið mjög að gagni.