137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni viðskiptanefndar fyrir framsögu hennar og við höfum tækifæri til að ræða þetta betur á eftir. Það kom margt gott og athyglisvert fram hjá hv. þingmanni og ég tel að hv. viðskiptanefnd hafi reynt að vinna þetta eins vel og hægt er á þeim skamma tíma sem gafst til þess. En ég vildi beina einni spurningu til hv. þingmanns og formanns nefndarinnar.

Formaður fór mjög vel yfir málið og fór yfir sviðið, ekki bara það sem snýr beint að þessu máli heldur málið í heild sinni sem er afskaplega mikilvægt. Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hún teldi ekki að það væri skynsamlegra fyrir nefndina og þingið að taka betri tíma í að fara yfir þetta mikilvæga mál en okkur hefur gefist tækifæri til á þeim fáu dögum sem við höfum haft málið til umfjöllunar.