137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:35]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála því að það hefði verið mjög gott ef við hefðum haft aðeins meiri tíma í andsvörunum. Ég held að það skipti mjög miklu máli að við þingmenn gerum okkur fyllilega grein fyrir því hvað við erum að fjalla hér um. Hv. þingmaður lét ákveðin orð falla í sinni framsögu um græðgi stofnfjáreigenda sem ég get alls ekki tekið undir að sé hægt að yfirfara á alla sparisjóði og alla stofnfjáreigendur í landinu. Ég held að margir hafi einmitt verið bara að vinna í því að tryggja að það væri almenn fjármálaþjónusta á þeirra svæði með stuðningi við sparisjóðinn. En ég tel líka að það komi fram í nefndaráliti meiri hlutans að það er alls ekki skýrt hvað eigi gera. Það er sagt, með leyfi forseta:

„Aðstæður sparisjóða eru ólíkar og því verður að meta hvert tilvik fyrir sig þegar tekin er ákvörðun um niðurfærslu.“

Þetta er mjög opið. Ég tel að með 7. gr. sé nánast verið að neyða í sumum tilvikum sparisjóði til að hafna framlaginu frá ríkinu og (Forseti hringir.) fara kannski mun erfiðari leið en ella og gera það að verkum að sparisjóðakerfið verði mun veikara fyrir vikið.