137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi ekki græðgi stofnfjáreigenda. Það eru orð hv. þm. Eyglóar Harðardóttur en ekki mín. Það sem ég sagði var að þrátt fyrir reglur sem einhverjir kannski teldu að hefðu verið góðar og skýrar hafi eigið fé og varasjóðir sparisjóðanna verið þurrausnir. Það var það sem ég sagði. Þannig hefur þetta verið í rauninni allt frá 15. júní, held ég það hafi verið, 2002 þegar Fjármálaeftirlitið gaf veiðileyfi á stofnféð. Það er bara þannig.

Varðandi stofnfé og hlutafé vil ég vísa aftur til 63. gr. núgildandi laga þar sem segir að stofnfjáreigendur beri ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðs umfram stofnfé sitt. Hluthafar bera ekki ábyrgð í hlutafélagi umfram hlut sinn. Að þessu leytinu til er þetta fullkomlega sambærilegt. Ábyrgðin er sú sama. Hún er takmörkuð við hlutafé annars vegar og stofnfé hins vegar.