137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega hefur mikið sparifé tapast í landinu og gerði það í bankahruninu. Það gerði það í viðskiptabönkunum og það gerði það í öðrum fjármálastofnunum og það hefur líka gert það í sparisjóðunum. Það sem þetta frumvarp er í rauninni að gera er að heimila niðurfærslu stofnfjárins þannig að það verði fært að raunvirði.

Það er enginn botn gefinn í þessum lögum. Það er ekkert slíkt öryggi, einungis þau fyrirheit sem ég nefndi áðan að menn meta það svo að mikilvægt sé að halda stofnfjáreigendum inni bæði sem viðskiptavinum og þannig að þeir byggi upp sjóðina áfram. Vegna þess sem ég sagði um að ekki væri meiningin að færa allt stofnfé niður í núll þá skal ég auðvitað ekki fortaka að til þess þurfi að koma í einstaka sjóðum. Ég hef ekki þá þekkingu að geta fullyrt það. En það er ekki meiningin að strauja þetta alls staðar niður í núll og það er ekki meiningin að fara (Forseti hringir.) niður um sömu tölu hjá öllum sjóðum. Þetta verður metið í hverju tilfelli fyrir sig.