137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:43]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að tala um vinnu nefndarinnar, tímann sem við höfum haft. „Þrjár vikur,“ sagði hv. nefndarformaður Álfheiður Ingadóttir og hún taldi það býsna mikið í samhengi hlutanna ef miðað var við aðra lagasetningu í tengslum við bankahrunið. Mér finnst þetta ekki kannski rétti samanburðurinn. Það ætti frekar að líta á þann tíma sem við þurfum og taka þann tíma sem við þurfum til að vanda til lagasetningar. En það hefur einmitt verið gagnrýnt.

1. júlí-fresturinn var margræddur í nefndinni og í ljós kom í dag að það var ekki Fjármálaeftirlitið heldur fjármálaráðuneytið sem veitti hann og þá fyrst og fremst út af björgunarþættinum. Því vil ég spyrja hv. þingmann Álfheiði Ingadóttur af því að hún telur að við þurfum ekki lengri tíma, hvort hún telji þetta besta frumvarpið sem mögulegt er að fá út úr þessari vinnu — hvað segir þingmaðurinn um það? — og hvort nokkurra daga (Forseti hringir.) vinna til viðbótar til að bæta þetta mundi tefja björgun einhverra sparisjóða.