137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

málefni Landhelgisgæslunnar.

[16:01]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil líka óska okkur öllum til hamingju með nýja flugvél TF-Sif, sem kom til landsins núna rétt áðan. Það er sagt að hún muni valda byltingu í björgunarmálum og ég vona að það sé rétt.

Við ræddum þessi mál 16. júní í þinginu og var sú er hér stendur með fyrirspurn um þyrlukost Landhelgisgæslunnar. Þá sagði hæstv. dómsmálaráðherra, ég ætla að vitna beint í orð hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Ég tek undir áhyggjur um að þessi mál séu ekki með fullnægjandi hætti.“

Hæstv. ráðherra gerir sér því mjög vel grein fyrir því að þyrlukosturinn sem við búum við í dag er þannig að við getum ekki bjargað sjómönnum í u.þ.b. þrjá mánuði á ári eins og staðan er núna og það hefur komið fram í skriflegum svörum frá hæstv. ráðherra. Það hefur líka komið fram í skriflegum svörum að það kosti 700 millj. kr. að leigja viðbótarþyrlu. Auðvitað er það geysilega há upphæð en þegar mannslíf eru í húfi þarf maður að vega og meta hvað er réttlætanlegt.

Ég vil sérstaklega fagna því að hæstv. ráðherra hefur sagst ætla að leita leiða til að auka björgunargetu þyrlnanna og tók í ræðu sinni undir þá hugmynd sem ég lagði fram á fundi 16. júní um að skoða hvort lífeyrissjóðirnir gætu komið að þessu máli af því að það er mjög blóðugt að þurfa að nota svona háar upphæðir til að leigja þyrlu þegar gengisþróunin er eins og hún er. Það er þess vegna sem Landhelgisgæslan stendur svo illa, þ.e. vegna gengisþróunar að mestu leyti.

Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvort tilkoma TF-Sifjar hingað til lands breyti þessu um þann tíma sem ekki er hægt að koma sjómönnum til bjargar. Við getum ekki komið þeim til bjargar í þrjá mánuði á ári ef þeir lenda í vanda utan við 20 mílur frá landi. Breytir tilkoma TF-Sifjar því eitthvað, styttist þetta tímabil?

Svo vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra: Hvað eru viðræður við (Forseti hringir.) lífeyrissjóðina komnar langt? Eru þær á algjöru byrjunarstigi?