137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

málefni Landhelgisgæslunnar.

[16:03]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Það er rétt að óska Landhelgisgæslunni og okkur öllum til hamingju með daginn í dag bæði á afmæli Landhelgisgæslunnar og í tilefni af því að nýja flugvélin er nú líklega lent hér á landi í fyrsta skipti, hún átti að lenda hér um klukkan þrjú.

Fjárhagsvandi Landhelgisgæslunnar er svo sem ekki nýr af nálinni eftir því sem við vitum sem höfum fylgst með rekstri hennar í gegnum árin. Hér er um margra ára vanda að ræða þó að það sé ekki sambærilegt við það sem Gæslan stendur frammi fyrir núna.

Í ágúst í fyrra var gert ráð fyrir því að flugvél sú sem lendir í dag mundi kosta ríkissjóð 2,7 milljarða kr. og nýja varðskipið sem er væntanlegt hingað til lands á næsta ári mundi kosta um 3,6 milljarða. Samtals munu þessi tvö verkefni kosta ríkissjóð um 6,3 milljarða. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég aflaði mér úr fjármálaráðuneytinu núna nýlega er það komið eitthvað á níunda milljarð kr. samtals sem þessi tvö verkefni munu kosta okkur. Það eitt og sér lýsir með skýrum hætti þeim mikla vanda sem við blasir hjá Landhelgisgæslunni í rekstri í framtíðinni.

Það kom til tals strax í haust, eins og hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi hér áðan, að leigja varðskipið um tíma. Sú hugmynd fór aldrei í neinn áberandi og endanlegan farveg og stendur ekki til í dag að gera það en reynt var að fá frestun á afgreiðslu skipsins hingað til lands og það tókst. Reynt var að fá frestun á flugvélinni og að breyta kaupsamningnum um flugvélina yfir í að vera nokkurs konar rekstrarleiga. Það þótti ekki hagkvæmt og var reynt að hafa áhrif á samninginn að öðru leyti (Forseti hringir.) en samningsaðilinn og seljandi flugvélarinnar féllust ekki á slíkt.

Það er ljóst af því sem ég nefni hér og blasir við okkur öllum að rekstur Gæslunnar verður (Forseti hringir.) mjög erfiður á næstu árum.