137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

málefni Landhelgisgæslunnar.

[16:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað og óska okkur og Gæslunni til hamingju með daginn í dag og eins að fagna komu nýrrar flugvélar.

Ég vil líka taka undir með hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra að Alþingi og fjárlagavaldið verður að gera sér grein fyrir því í fjárlögum til hvers er ætlast af Landhelgisgæslunni. Ég heiti henni því að ég mun leggja mitt af mörkum til þess að hún geti sinnt sínum lögbundnu störfum.

Árið 1995 urðu þáttaskil hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar en þá kom ný og öflug þyrla til landsins, TF-Líf. Mig langar að taka saman, með leyfi forseta, nokkrar staðreyndir og þær eru þessar:

Á tíu ára tímabili, frá árinu 1999 til 2008, bjargaði þyrlusveit Landhelgisgæslunnar 203 sjómönnum úr sjó eða frá skipum. Hér er talað um að Landhelgisgæslan geti ekki sinnt lögbundnum skyldum sínum og sé ekki til taks fyrir sjómenn ákveðið marga daga í mánuði, kannski 25–30% í hverjum mánuði, sem eru um þrír mánuðir á ári, og er það að mínu viti algjörlega óviðunandi. Á aðeins fimm dögum í mars 1997 bjargaði þyrlusveit Landhelgisgæslunnar 39 sjómönnum í þremur skipssköðum. Á fimm dögum. Það sjá því allir hversu mikilvægt er að hún sé til staðar alla daga ársins.

Síðan verðum við líka að muna að aðstæður eru oft þannig að það er eingöngu hægt að bjarga sjómönnum með þyrlum, það er ekki hægt að gera það á neinn annan hátt, ekki úr landi, þó að menn komist að strandstað er það ekki hægt.

Að lokum segi ég, frú forseti, að íslenskir sjómenn og fjölskyldur þeirra hafa þegar fært nógu miklar fórnir þannig að ég hvet Alþingi og fjárlaganefnd til þess að standa þannig að verkum að Landhelgisgæslan geti sinnt sínum lögbundnu skyldum gagnvart sjómönnum og öryggismálum þeirra.