137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

málefni Landhelgisgæslunnar.

[16:13]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Eitthvað hafa orð mín um kostnaðinn við þyrlukaup og skipakaup fyrir Landhelgisgæsluna farið öfugt ofan í hv. þingmann sem talaði hér áðan. Ég var einungis að velta upp þeim upphæðum sem nú er um að ræða varðandi þessi kaup. Ég var ekki að gera lítið úr að það þyrfti að styrkja Landhelgisgæsluna, ég var ekki að gera lítið úr því, hv. þingmaður, að hér þurfi að vera góð landhelgisgæsla í kringum landið. Allra síst ætla ég að gera lítið úr því að hér sé ekki örugg þjónusta við sjómenn á hafi úti, örugg björgunarþjónusta og læknisþjónusta þegar á þarf að halda, þannig að ég ætla að biðja hv. þingmann um að fara varlega við að túlka orð mín hvað þetta varðar.

Ég benti á þessar tölur og sagði að kostnaðurinn væri kominn á níunda milljarð, ekki til að hneykslast á því heldur til að undirstrika þann rekstrarvanda sem blasir við hjá Landhelgisgæslunni. Það var undirstrikað strax í haust þegar reynt var að bakka út úr því að kaupa varðskipið, sem nú hefur verið sjósett og gefið nafn. Reynt var að fá afhendingu skipsins frestað og það tókst, til viðbótar við að það að skipastöðin gat ekki staðið við skuldbindingar sínar um afhendinguna. Fyrri ríkisstjórn reyndi eins og mögulegt var að breyta kaupsamningi varðandi flugvélina, setja hana á einhvers konar rekstrarleigu sem gekk ekki upp því að það var mjög óhagkvæmur kostur o.s.frv. Allt var þetta gert í sama tilgangi, þ.e. að reyna að spara fé til rekstrarins.

Það er ljóst, virðulegi forseti, að forsendurnar sem uppi voru hér á haustdögum varðandi varðskipið, þ.e. að skipið kæmi sem viðbót við rekstur annarra skipa, eru brostnar. Nýja varðskipið kemur ekki inn sem viðbót til rekstrar með þeim skipum sem fyrir eru, þau þurfa einhver að víkja og er það af fjárhagslegum orsökum.