137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:27]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef þakkað hv. formanni viðskiptanefndar svo oft að ég er búinn að fá mjög margar spurningar í tengslum við það. En ég get alveg þakkað hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir prýðilega stýringu í nefndinni. Ég tók það skýrt fram — ég veit ekki hversu oft ég gerði það — að ég tel að málið hafi lagast í meðförum nefndarinnar.

Það voru ekkert haldnir fáir fundir, virðulegur forseti. Það var ekki svo. Ég sagði það aldrei. Niðurstaða okkar og tillaga var einfaldlega sú að við ættum að gera það sem væri nauðsynlegt til þess að ríkið gæti framfylgt þeim hluta neyðarlaganna sem sneri að sparisjóðunum en því sem snýr að heildarumhverfi sparisjóðanna hefur ekkert verið svarað. Það kom alveg skýrt fram í nefndinni. Ég veit að hv. þingmaður var að stórum hluta erlendis meðan við fjölluðum um þessi mál. En það kom alveg skýrt fram að það er engin áætlun til um til dæmis það sem er ekki lítið mál, þ.e. hvernig ríkið ætlar að koma sér út úr rekstri sparisjóðanna aftur, engin. Það liggur alveg fyrir miðað við þær upplýsingar sem við höfum.

Hér kemur hv. formaður nefndarinnar og segir að það sé ekkert útilokað að stofnfé verði fært niður í núll og við erum að ganga frá lagasetningu sem gengur út á að þetta verði hreinir og klárir ríkissparisjóðir. Hvað ætla menn að gera við það, virðulegi forseti? Það veit enginn. Er þá óeðlileg krafa þegar við erum að ganga frá þessum málum með þessum hætti að löggjafinn sé búinn að átta sig á því hvernig umgjörð og nánasta framtíð sparisjóðanna verður? Er það óeðlilegt?