137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:30]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel þvert á móti að þetta mál hafi verið unnið vel og vandlega og það hefur ekkert með minn málflutning að gera þó að ég hafi ekki setið fundi í nefndinni í eina viku. Ég hef sett mig mjög vel inn í þetta mál eins og flest þau mál sem ég kem að í nefndum Alþingis og finnst það vægast sagt ósmekklegt af hv. þingmanni að ýja að því að vegna þess að ég hafi ekki setið einhverja tiltekna fundi sé ég ekki búin að setja mig inn í málið.

Aðalatriði þessa máls er, eins og hv. þingmaður veit, að það er lífsspursmál fyrir tiltekna sparisjóði í þessu landi að þetta mál verði unnið hratt og örugglega og það er kallað eftir því að Alþingi Íslendinga afgreiði þetta mál núna en bíði ekki með það vegna þess að sparisjóðirnir þurfa á því að halda.