137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum hlýtt hér á álit minni hluta viðskiptanefndar á þessu frumvarpi um sparisjóðina. Við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson erum sammála um hversu mikilvægt þetta mál sé og hversu mikilvægt sé að varðveita sparisjóðaformið og endurreisa sparisjóðina enda tókum við báðir þátt í að samþykkja lög um það á sínum tíma — réttara sagt, já, neyðarlögin — að við skyldum gæta þessa forms.

Það sem kom mér aftur á móti verulega á óvart var að fá nefndarálit frá minni hluta nefndarinnar þar sem aðeins er sagt pass. Þar sem menn í rauninni bara segja: „Við höfum ekki hugmynd um hvað á að gera. Við óskum bara eftir betri tíma.“ Það kemur mér sérstaklega á óvart varðandi hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson sem var starfandi bankamálaráðherra vegna vanhæfis fyrrum fjármálaráðherra á sínum tíma fram til 1. febrúar þegar einmitt var unnið að málefnum sparisjóðanna. Hv. þingmanni hefði því átt að vera betur kunnugt en öllum öðrum um við hvað væri að glíma.

Ég vil líka að vekja athygli á því að hv. þingmaður kallar það svo að járnhæll ríkisstjórnarinnar reki málið áfram. Hvað er nú orðið um þá ræðu sem var flutt hér nánast í hverjum einasta andsvarstíma langtímum saman um aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, um hvað mál gengju of hægt og þetta tæki allt of langan tíma og svo framvegis? Nú er sleginn allt annar tónn. Nú höfum við allt í einu nógan tíma jafnvel þó að hér sé að hrynja yfir okkur heilt sparisjóðakerfi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvaða tímamörk telur minni hlutinn að við höfum? Hversu langan tíma höfum við til þess að vinna í málum sparisjóðanna og hverjar eru helstu tillögur minni hlutans um lausn, það sem þeir sjá fyrir sér að komi inn þá í framhaldinu sem tillögur?