137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:41]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðbjarti Hannessyni svíður eðli málsins samkvæmt að vera í stjórnarmeirihluta sem er vændur af ástæðu um mikið aðgerðaleysi. Það stendur. Aftur skal ég fara yfir það sem ég er búinn að fara yfir í nokkrum andsvörum, í minnihlutaálitinu og í framsöguræðu minni, að það sem snýr að björgunaraðgerðunum er nokkuð sem minni hlutinn hefur lagt áherslu á að vinna eins hratt og mögulegt er.

Síðan spyr hv. þingmaður: Hvað sjónarmið eru varðandi sparisjóðaumhverfið í heild sinni? Vísar hann þá til fyrri starfa minna. Þá var ég að vísu starfandi fjármálaráðherra í tengslum við þetta mál og útfærði reglur í desember. Ég get alveg upplýst þingheim um að það var mjög snúið mál og við kölluðum til marga sérfræðinga til þess að fara yfir það því að það var alls ekki einfalt.

Þær upplýsingar sem við fáum í nefndinni eru að þær forsendur sem stuðst var við á þeim tíma hafi breyst mjög mikið. Við fengum að vísu ekki meiri upplýsingar og ég hef ekkert verið í því hér, vegna þess að mér hefur fundist — þrátt fyrir allt hef ég verið sáttur því að almenna reglan er sú að formaður viðskiptanefndar hefur tekið vel í beiðni um upplýsingar og hefur kallað eftir þeim og við höfum fengið gesti á nefndarfundina. En ég vek athygli á því að það átti að taka út málið í gær. Á sama tíma vorum við að fá upplýsingar sem við vorum að biðja um. Við vorum að funda um þetta mál í dag þannig að þegar við komum hér — og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni — þá segjum við: Við þurfum meiri tíma (Forseti hringir.) til þess að taka afstöðu til þess. Hv. þingmaður gerir lítið úr því og kallar það pass. Þá segi ég: Það er nú ábyrgt, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að fá upplýsingarnar og taka afstöðu í kjölfarið.