137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom hérna að kjarna málsins, einu af þessum álitaefnum sem uppi eru. Hv. þingmaður fór yfir sína pólitísku skoðun á því að það væri mjög mikilvægt að fara varlega í niðurfærslu, fara af varfærni í niðurfærslu á stofnfé og að stofnfjáreigendum væri gert kleift að vinna sig aftur inn með sitt fé, ef ég skildi hv. þingmann rétt, og hann spurði: Er ekki trygging fyrir því?

Ég vísaði hér í það og fór yfir það að það eru engar áætlanir. Það hefur ekkert verið kynnt fyrir nefndinni og verið hreint og klárt sagt að það eru engar áætlanir um það hvernig menn sjá þetta fyrir sér. Það eru engar áætlanir um það hvernig ríkið eigi að koma sér út úr þessu. Eina sem við vitum um niðurfærsluna er það sem kom fram í andsvörum og kemur fram hjá ýmsum gestum í nefndinni.

Þess vegna erum við með þetta minnihlutaálit (Forseti hringir.) eins og hv. þingmaður er búinn að lesa og kynna sér, þ.e. vegna þess að við erum sammála hv. þingmanni um að það þarf að svara þessum spurningum.