137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:46]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Bhr):

Frú forseti. Þetta er snúið mál. Ég er t.d. sammála meiri hluta nefndarinnar um allar breytingartillögur hans, mér finnst þær allar til bóta, en ég er ekki sannfærð um að þetta sé gott frumvarp. Mér finnst það bara taka á yfirborðsvanda þegar við þyrftum að kafa dýpra og huga að undirstöðunni. Mér finnst þetta svolítið eins og að við komum að manni með opið beinbrot og setjum plástra á sárið þegar við þyrftum að kafa dýpra í málin. Þetta eru plástrar fyrir svakalega mikla peninga og ég held því miður að þetta sé bara sóun á plástrum.

Við höfum haft skamman tíma til að vinna þetta mál miðað við hvað það er umfangsmikið. Ég held að nefndin hafi gert allt sem hún gat á þessum tíma með það sem við höfðum í höndunum. Ég veit ekki hvort við hefðum getað gert neitt meira, en ég held að við höfum í rauninni ekki efni á að hafa ekki farið almennilega í þetta mál.

Í einni nefnd geta rúmast ótal skoðanir og við í minni hlutanum erum alls ekki sammála um öll atriði sem snúa að þessu frumvarpi. Ég skil vel sjónarmið margra þeirra um að við ættum að standa vörð um stofnfjáreigendurna en þetta er ekki einfalt mál og ég get ekki með nokkru móti réttlætt fyrir sjálfri mér eða öðrum að við ættum að standa einhvern frekari vörð um stofnfjáreigendur en aðra fjárfesta í landinu sem hafa tapað fullt af peningum. Því er ég algjörlega sammála meiri hluta nefndarinnar um það efni en mér finnst þetta ekki nógu gott frumvarp fyrir sparisjóðina. Ég held að þessar aðgerðir komi ekki til með að duga.