137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[19:33]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir ræðu hans. Ég deili að mörgu leyti áhyggjum hans og þá sérstaklega hvað varðar stöðu einstakra sparisjóða úti um land og byggða sem þeim tengjast.

Í vinnu nefndarinnar reyndum við að sjálfsögðu að horfa til þeirra hagsmuna sem hann minntist á í ræðu sinni og reyndum svo sannarlega að finna leiðir til þess að gæta að þeim byggðum sem um er að ræða. Þess vegna deili ég áhyggjum hans og vil taka það sérstaklega fram. Við teljum að með nefndarálitinu og þeim breytingum sem þar koma fram sé verið að milda það högg sem er nú orðið eins mikið og unnt er. En við komumst ekki fram hjá þeirri staðreynd að sparisjóðirnir eru komnir með neikvætt eigið fé, þ.e. neikvæða varasjóði, stofnfjáreigendur eru því þegar búnir að tapa því sem nemur hinum neikvæða mismun á stofnfé og eigin fé og hjá því verður ekki komist. Það er alveg sama hvort við tölum um hlutafé eða stofnfé. Ef munur á stofnfé og eigin fé er neikvæður þá er sá mismunur farinn og við getum ekki breytt þeirri staðreynd.

Fyrir utan er svo jafnræðissjónarmiðið, því stofnfjáraukning sparisjóðanna verður að fylgja almennum jafnræðisreglum og útfærslan á niðurskrift stofnfjár í frumvarpinu er til að laga stofnfjáraukninguna að almennum jafnræðisreglum, enda væri tillegg hins opinbera á öðrum forsendum afar hæpið ef ekki beinlínis andstætt stjórnarskrá. Við getum ekki réttlætt, þ.e. gjöf fyrirtækisins gagnvart öðrum skattgreiðendum þessa lands. Við erum vissulega að gæta að því hvað við gerum með varúð, gæta að raunvirði og viðskiptalegum hagsmunum og þess vegna tel ég það tryggt með þeim orðum sem hafa fallið í þingsalnum í dag og í kvöld að hagsmuna stofnfjáreigenda verður gætt vegna þess að það eru viðskiptalegir hagsmunir sem liggja að baki því að þeir séu með í þeirri vinnu sem er fram undan.