137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[19:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei eitt andartak efast um að að baki þessu frumvarpi lægi góður hugur og velvilji í garð sparisjóðanna. Það hefur komið glögglega fram og ég hef aldrei dregið það í efa. Þess vegna er það út af fyrir sig góð árétting og staðfesting hv. þingmanns á því sem ég hef talið varðandi þetta mál.

Mér fannst hins vegar og það kom raunar fram í ræðu hv. þingmanns að hann var að staðfesta illan grun minn sem er sá að í ljósi þess að í mörgum sparisjóðum hefur gengið svo á eigið fé þeirra að það er ýmist lítið eða ekkert, þá sé óhjákvæmilegt að færa niður stofnféð sem því nemur og það er sá illi grunur minn sem hefur nú m.a. í þessum andsvörum verið staðfestur.

Ég varpaði hins vegar fram í ræðu minni áðan tveimur hugmyndum. Því miður hafði ég ekki tíma til að gera ítarlega grein fyrir þeim en ég hygg að hv. þingmönnum séu þær ljósar. Annars vegar var sú leið að setja einhvers konar gólf í þetta til þess að tryggja ákveðna stöðu, ákveðinn möguleika á því að laða stofnfjáreigendur á svæðinu til þess að koma með viðbótarframlag inn í sparisjóðina. Hins vegar vakti það athygli mína í ræðu framsögumanns nefndarinnar að hún impraði á því að e.t.v. mætti breyta hinum svokölluðu endurhverfu lánum sem vel að merkja eru fyrst og fremst á hinum stærri sparisjóðum í landinu, breyta endurhverfu lánunum í víkjandi lán eða stofnfé til að styrkja þá sjóði sem þarna áttu í hlut. Þess vegna kom upp sú hugmynd hjá mér hvort ekki væri eðlilegt að fara þá með sama hætti með þau lán sem Seðlabankinn hefur nú undir höndum eftir fall sparisjóðabankans og nýta það með sama hætti og gert var þegar á sínum tíma var gengið í það og ákveðið að koma VBS og Sögu Capital til bjargar. Það út af fyrir sig gæti verið mjög mikilvægur punktur og innlegg í þennan björgunarleiðangur og þess vegna vil ég árétta það til varaformanns nefndarinnar hvort ekki komi til greina að skoða þessa leið og koma þannig um leið til hjálpar sparisjóðunum og stofnfjáreigendunum.