137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[19:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnst umræðan sem var að ljúka og ræða hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar búin að vera afbragðsgóð og upplýsandi. Margt hefur komið fram og ég ætla ekki að fara að lengja þessa umræðu með því að endurtaka margt af því sem ég hafði hugsað mér að segja sem kom fram í máli hv. þm. Einars Guðfinnssonar. Ég hef hugsað mér í örfáum orðum að víkja að nokkrum öðrum atriðum.

Ég held að í þeirri umræðu sem hér fór fram kristallist einmitt það sem ég vil leggja áherslu á. Þar er að við erum ekki komin út á enda með þessa umræðu og við þurfum meiri tíma til að fara vel yfir þetta mál. Það er nokkuð sem við í nefndinni höfum lagt áherslu á og tekið undir umsagnir hjá fjölmörgum aðilum og þar á meðal frá Fjármálaeftirlitinu eins og hefur komið fram í umræðunni og kom fram líka í orðaskiptum okkar fyrr í dag undir liðnum störf þingsins.

Ég hef áhyggjur af því að við erum með tvíþætt verkefni. Við erum í rauninni að tala annars vegar um þann björgunarleiðangur sem sparisjóðirnir allir eða velflestir í landinu og sparisjóðafjölskyldan eins og hún er gjarnan kölluð er í um þessar mundir. Það skal enginn reyna að gera lítið úr því stóra verkefni. Ég tek undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni þegar ég segi að mér detti ekki í hug í eina mínútu annað en að talsmenn meiri hlutans beri hag sparisjóðanna fyrir brjósti og leggi sig alla fram um að koma þeim til aðstoðar eins og þeim best þykir.

En við höfum rætt það líka í framhaldi af ábendingu Fjármálaeftirlitsins að við þurfum að einbeita okkur að þeim atriðum sem þarf til vegna björgunar sparisjóðanna og við höfum við ekki verið alltaf sammála um hvaða atriði það séu. Í mínum huga er það í raun það sem var mest til umfjöllunar í ræðu síðasta ræðumanns, 7. gr. Ég er ekki sammála því að þar sé að finna, eins og hv. formaður nefndarinnar hefur talað fyrir, þ.e. að í hverri grein frumvarpsins nærri því sé að finna atriði sem ekki megi bíða. Þetta snýst fyrst og síðast um það að til þess að uppfylla pólitísk markmið eða pólitíska túlkun á neyðarlögum, eins og umræðan bar með sér áðan, þá þykir nauðsynlegt að færa niður stofnfé og þá er það sú grein sem ég tel að sé sú sem við ættum að einbeita okkur að. En við þurfum að horfa á dæmið hins vegar í heild sinni og endurskoðun og framtíðarsýn sparisjóðakerfisins alls. Það kom fram í nefndinni og var viðurkennt, má segja, af fulltrúa viðskiptaráðuneytisins að ekki búið að hugsa fyrir hlutum eins og þeim hvernig ríkið ætli að koma sér út úr rekstri sparisjóðanna. Það var ekki talið mikilvægt á þessari stundu. En eins og kemur fram í áliti okkar minni hlutans erum við ekki sammála því. Mér persónulega finnst þetta vera lykilatriði vegna þess að ef við erum ekki með klára áætlun um það hvernig ríkið ætli að koma sér út úr þessum rekstri og lítinn hvata fyrir stofnfjáreigendur til að koma inn þegar búið er að skrifa niður stofnfé og þvert á það sem haldið er fram — ég vona reyndar að það sé alveg rétt sem nefndarformaðurinn hefur haldið fram að ekki sé ætlunin að skrifa stofnfé alveg niður í núll. Þó óttast ég að í einhverjum tilvikum gæti farið svo að það mundi nálgast það gólf og þá er það farið sem skortir upp á í hugmyndafræðinni á bak við sparisjóðina. Þá er farinn sá hvati fyrir stofnfjáreigendur til að koma inn og leggja fram stofnfé og þá sitjum við uppi til framtíðar með ríkisvædda sparisjóði sem ég held að sé ekki góð framtíðarsýn. En ef það er það sem við sjáum í spilunum þá held ég — og það held ég að hafi komið fram í annaðhvort álitum eða máli einhverra gesta nefndarinnar — þá er kannski hreinlegast að gera það þannig að ríkið taki þetta yfir strax í staðinn fyrir að vera í einhverjum millileikjum. En það er önnur saga.

Ég tel að bæði hvað þessi umræða sýnir og hvað vinna nefndarinnar sýnir að svo fjölmörgum spurningum sé ósvarað að mig óar við því að við gætum gert mistök í lagasetningu og að við séum að fara hér fram með lagabreytingar sem við þurfum að fara í fljótlega aftur. Formaður nefndarinnar sagði reyndar í framsögu sinni að hún útilokaði ekki að aftur yrði farið í lögin. Við erum með annað frumvarp í viðskiptanefnd um bankasýslu. Talað er um að endurskoða þurfi lög um fjármálafyrirtæki. Þau sömu lög og við erum að breyta hér. Ég ítreka það að ég hef ekki sannfæringu fyrir því að við séum búin. Þrátt fyrir að nefndin hafi unnið ágætlega á þeim skamma tíma sem hún hefur haft þá held ég að við séum ekki komin út á enda með þessa hugsun. Sá tímafrestur og sú tímapressa sem við erum að berjast við snýr kannski ekki mest að framtíðinni. Hún snýr að nútíðinni. Þess vegna hefði ég viljað leita allra leiða og við í minni hlutanum til að reyna að aðgreina þetta tvennt, til að koma í veg fyrir að við gerum mistök í lagasetningu. Mig langar að lesa aðeins upp úr nefndaráliti okkar hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar frá því 29. maí síðastliðinn þegar við vorum að breyta lögum um fjármálafyrirtæki. Þá sögðum við í álitinu, með leyfi forseta:

„Að mati minni hlutans hafa ekki komið fram sannfærandi rök fyrir því að vinna málið í jafnmiklum flýti og gert var. Helstu rökin sem nefnd hafa verið fyrir flýtimeðferðinni eru launagreiðslur til fyrrum starfsmanna tiltekinna fjármálastofnana á uppsagnarfresti. Minni hlutinn hefur skilning á því sjónarmiði. Efasemdir hafa komið um að umrædd lagabreyting muni nægja til þess að hægt verði að greiða út launakröfur og því alls óvíst að því markmiði laganna verði náð. Ef málið hefði komið fyrr inn í þingið og skipulegar hefði verið unnið að því hefði mögulega verið unnt að finna á þessu lausn. Minni hlutinn lýsti sig tilbúinn að koma að slíkri vinnu og ýmsar hugmyndir voru reifaðar sem ekki náðist að skoða.“

Þetta er, að litlum atriðum frátöldum, það sem ég vildi segja hér í hnotskurn og sé eiginlega eftir að hafa ekki komið inn í annars ágætt minnihlutaálit okkar. Við hefðum getað kóperað þetta skemmtilega á milli. Ég las þetta ekki fyrr en eftir að við vorum búin að skila af okkur minnihlutaálitinu. En það er nákvæmlega þetta sem ég er hrædd um að gerist vegna þess að hvað hefur verið að gerast núna? Í nefndinni í morgun vorum við einmitt að ræða um að það sem við sögðum hér gekk eftir. Sú lagabreyting sem lögð var til dugði ekki til að leysa það vandamál sem lagt var upp með, vandamál sem við höfðum skilning á. Nákvæmlega á sama hátt núna höfum við skilning á því að það þarf að klára þetta mál hratt og örugglega. En við erum ekki sammála um að þetta frumvarp nái þeim markmiðum.

Ég ætla ekki að endurtaka, eins og ég sagði í upphafi, það sem sagt hefur verið hér efnislega um frumvarpið. Ég tel að helstu atriðin séu komin fram. En hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði í framsöguræðu sinni eða andsvari að sparisjóðirnir ættu vini í þessum sal og það væri gott og við værum öll að reyna að vinna að hagsmunum þeirra. Ég vil bara segja að mér þykir eðlilegt að sparisjóðirnir eigi marga vini í þessum sal vegna þess að þeir eiga vini skilda miðað við hvernig þeir hafa sinnt hlutverki sínu og þá sérstaklega eins og hér hefur fram komið í smærri samfélögum úti á landi.

Ég kem úr Keflavík og því er nærtækast fyrir mig að taka dæmi um Sparisjóðinn í Keflavík. Ég segi það fullum fetum að ég er fullkomlega vanhæf vegna þess að tilfinningar mínar til Sparisjóðsins í Keflavík eru mun sterkari en til annarra sparisjóða. Það er af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna þess að þarna hef ég átt reikning frá því að ég var skírð. Móðir mín vann þarna í tugi ára og ég er þarna með öll mín viðskipti. Til að það komi hér fram þá er ég stofnfjáreigandi en að mjög litlum hlut sem ég er ekki að telja hér. Tilfinningalegu tengslin eru mun meiri en þau fjárhagslegu.

Ég tek undir allt sem sagt hefur verið hér um mikilvægi sparisjóðanna fyrir þessi samfélög þá er stofnfjáreignin eitt atriði og stofnfjáreigendurnir og mikilvægi þeirra vegna þess að þeir eru velflestir viðskiptamenn og hafa hag af því að sparisjóðurinn vaxi og dafni og geti sinnt sínu hlutverki. En ég er líka að tala um hluti eins og mikilvægi þessara sparisjóða, þessara litlu sparisjóða úti um land sem vinnustaðar. Sparisjóðurinn í Keflavík veitir 120 manns vinnu. Sparisjóðurinn í Keflavík er stór lánveitandi til atvinnustarfsemi á svæðinu, öllu hans starfssvæði. Reyndar er starfssvæði hans út um allt land vegna þess að viðskiptavinirnir koma alls staðar að. Sparisjóðirnir eru mikilvægir styrkveitendur til alls konar menningar-, íþrótta- og félagsstarfsemi eins og við vitum. Ástæðan fyrir því að ég endurtek þetta sem hér hefur verið sagt er að ég er svo hrædd um að ef við gerum þetta ekki rétt, ef við pössum ekki upp á að gera þetta þannig að þessar stofnanir eigi sér rekstrargrundvöll til framtíðar og nái að komast í gegnum þá erfiðleika sem við erum í núna, þ.e. ég má ekki til þess hugsa hvað verði um vonina sem er af svo skornum skammti í þessum samfélögum, til dæmis eins og í mínum aftur tilvonandi heimabæ — ég er brottflutt en er á leiðinni heim aftur — ef þessi stofnun mundi fara. Ég má ekki til þess hugsa vegna þess að þetta er hornsteinn þarna í samfélaginu og er með stóra hlutdeild á þessu svæði og það væri ömurlegt fyrir þetta samfélag sem hefur orðið fyrir miklum höggum ef þetta yrði líka til þess að draga vonina úr samfélaginu þannig að ég segi: Tökum höndum saman. Ég ítreka að þó að við í minni hlutanum höfum verið ósammála um ýmsa hluti þá teljum við, eins og fram kemur í minnihlutaáliti okkar, að flestar þær breytingartillögur sem lagðar eru hér til séu til bóta. En ég ítreka að það sem við fyrst og síðast leggjum áherslu á er að enn er fjölmörgum spurningum ósvarað. Í lokin á álitinu okkar teljum við upp nokkur atriði sem við verðum að skoða í framtíðarspekúlasjónum í þeirri vinnu sem fram þarf að fara um framtíðarhlutverk sparisjóðanna.

Ég ætla að ljúka máli mínu, virðulegi forseti, en vil að lokum ítreka það að áhersla okkar fyrst og síðast er á vandaða málsmeðferð. Við berum hag sparisjóðsins fyrir brjósti eins og við öll hér og legg áherslu á að við reynum að finna leiðir til að bæta þetta frumvarp í sameiningu milli umræðna þannig að við getum öll lagst á eitt við að koma þeim aftur á lygnari sjó sem vonandi er fram undan í okkar samfélagi.