137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[19:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér um svokallað sparisjóðafrumvarp sem fjallar um lög um sparisjóði, meðal annars. Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu fyrir ágætisræðu hennar áðan þar sem hún talaði um mikilvægi sparisjóðanna í samfélagslegu tilliti. Ég þekki þetta úr nágrannahéraði mínu og úr kjördæmi mínu og nefni til að mynda Sparisjóð Húnaþings og Stranda, Sparisjóð Mýrasýslu og fleiri sparisjóði sem til langs tíma voru mjög miklir máttarstólpar og Sparisjóður Mýrasýslu sem lengi vel var kallaður hornsteinn í héraði og við viljum svo sannarlega ekki breyta þeim hornsteini sem sparisjóðirnir hafa verið í einhvers konar legsteina, eitthvað því um líkt.

Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að sparisjóðirnir fóru illa út úr bankahruninu og þeir standa margir hverjir mjög veikt. Ég hef verið í góðu sambandi við einn stjórnarmann í Sparisjóði Keflavíkur þar sem menn halda því fram og ítreka að sé ekki gripið inn í þá með einhverjum hætti og þótt fyrr hefði verið, geti farið verr en illa. Þeir eru með mikið af erlendum útlánum en þurfa síðan að fjármagna sig hér á landi og þetta veldur því að staða þeirra versnar dag frá degi.

Í neyðarlögunum sem samþykkt voru í haust er kveðið á um að fjármálaráðherra sé heimilt að leggja sparisjóðunum til fjárhæð sem nemur 20% af bókfærðu eigin fé þeirra. Þetta er sem sagt í neyðarlögunum og þetta þarf síðan að útfæra betur og það er eitt af því sem verið er að gera, einn liðurinn í þessu frumvarpi. Jafnframt er verið að styrkja stöðu sparisjóðanna í sessi, sparisjóðirnir verða til að mynda að skilgreina samfélagslegt hlutverk sitt. Það er ítrekað í þessum lögum að þeir séu sjálfseignarstofnanir og eignarréttindi stofnfjáreigenda eru mjög afmörkuð. Það er nefnilega lykilatriði í þessu að til lengri tíma höfum við þá sýn að við séum að styrkja sparisjóðina í sessi og við séum að byggja þá upp sem það samfélagslega tákn sem þeir voru.

Nú eru erfiðir tímar og ég tek sem dæmi þann sparisjóð sem ég þekki hvað best til sem er Sparisjóður Húnaþings og Stranda, sem er reyndar kominn inn í Sparisjóð Keflavíkur. Þegar hið svokallaða bankagóðæri stóð sem hæst og var farið að stytta í því fór af stað mikið æði með stofnbréf í þeim sparisjóði og menn voru að bjóða í hverja krónu stofnfjár 250–350 krónur. Það er óhætt að segja að þarna hafi gripið um sig einhvers konar gullæði og stofnfé Sparisjóðs Húnaþings og Stranda jókst þúsundfalt á mjög skömmum tíma, fór upp í 1,9 milljarða. Þetta er ekki stórt hérað, þarna að baki stendur mikið af lántökum hjá einstaklingum, hjá fyrirtækjum, hjá bændum, hjá litlum fyrirtækjum á Hvammstanga og víðar og alveg ljóst að þarna verða erfiðleikarnir mjög miklir. Líklegt er að þessar skuldir beri u.þ.b. 150–200 aðilar og ætli heildarskuldir séu kannski ekki 15–20 milljónir á hverja kennitölu?

Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að það sem gerist er að samkvæmt neyðarlögunum er kveðið á um, eða réttara sagt þegar neyðarlögin voru túlkuð og útfærsla þeirra túlkuð var kveðið á um að það verði ekki komist hjá því að lækka stofnfé sparisjóðanna og að niðurskrifa stofnféð.

Ég vitna því til stuðnings í minnisblað frá fjármálaráðuneytinu sem dreift var í nefndinni þar sem segir, með leyfi forseta:

„Stofnfjáraukning sparisjóðanna verður að fylgja almennum jafnræðisreglum og útfærslan á niðurskrift stofnfjár í frumvarpinu er til að laga stofnfjáraukninguna að almennum jafnræðisreglum.“

Þetta hefur Seðlabankinn tekið undir þar sem eitt af áhersluatriðum Seðlabankans í þessu máli var að tryggt yrði að það tap sem nú liggur fyrir verði borið af núverandi eigendum áður en ríkið leggur til nýtt eigið fé. Samtök sparisjóða hafa einnig gert sér grein fyrir þessu eins og kom fram í fylgiskjali, bréfi frá þeim inn í nefndina.

Það er hins vegar eitt sem ber að hafa í huga og ber að taka fram mjög skýrt en í þessu sama minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu kemur fram undir lið 2, það var spurning sem beint var til fjármálaráðuneytisins þar sem var spurt, með leyfi forseta:

„Spurt er hvort meiningin sé að færa stofnfé alls staðar niður í núll.

Meiningin er ekki að færa stofnfé alls staðar niður í núll. Í þeim tilvikum þar sem framlag ríkisins dugar til að koma CAD-hlutfalli sjóðsins upp fyrir 12% ræðst vægi eldra stofnfjár og nýs stofnfjár að nafnverði eigin fjár sem fyrir er ásamt niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og nýs stofnfjár.“

Það er alveg ljóst að ef ekki hefði verið gengið inn í sparisjóðina og þeir studdir með einhverjum hætti hefði farið verr en illa. Það er líka alveg ljóst að sparisjóðakerfið sem slíkt hefur orðið fyrir miklu höggi og þungu höggi og ég held að það taki töluverðan tíma að koma þeim aftur á það ról að þeir verði aftur það öflugir að þeir gegni því samfélagslega hlutverki sem hugmyndafræði þeirra upphaflega stóð til.

Það er líka alveg ljóst að í því góðæri sem ríkti voru margir hverjir sem höfðu það í hyggju að rústa og skemma sparisjóðakerfið og uppbyggingu þess. Þetta frumvarp er skref í þá átt að snúa ofan af því, að byggja sparisjóðina aftur upp á þeim grunni sem hugmyndafræði þeirra upphaflega gerði ráð fyrir en sú vegferð mun taka töluvert langan tíma því að staðan í samfélaginu núna er gríðarlega slæm. Staða ríkissjóðs er ekki góð, staðan er ekki góð hjá bönkunum almennt og ég held að þetta verkefni verði að vera langtímaverkefni.

Þá vík ég aftur að því sem snýr að stofnfjáreigendunum sem margir hverjir eða allflestir lögðu peninga í sparisjóðina í mjög góðri trú. Staða þessara aðila er ekki góð og ef við skoðum til að mynda þá 150–200 aðila sem eru í þeim sporum í Vestur-Húnavatnssýslu þá eru það um 10–15% byggðarinnar sem glíma við mjög mikil vandræði út af því hvernig komið er fyrir sparisjóðunum. Ég held að það hljóti að vera lykilatriði að staða þessa hóps sé skoðuð alveg sérstaklega, sé skoðuð sérstaklega í tengslum við það — og reyndar hjá fleiri svæðum — þegar kafað verður í þessi mál. Það verður einfaldlega að grípa þarna til einhverra sértækra aðgerða, það verður að grípa til einhverra aðgerða til þess að koma til móts við þetta fólk með einhverjum hætti og þessi fyrirtæki því að það er enginn hagur í því fyrir þjóðfélagið og fyrir ríkið að þetta fari þannig að gengið verði fram af fullri hörku gagnvart þessu fólki.

Varðandi það sem verið er að gera nú, sem er niðurfærslan, þá hafa að vísu komið fram ákveðnar hugmyndir og mér heyrist svona á þeim umræðum sem ég hef heyrt hér að fullur vilji sé til þess bæði hjá meiri hluta og minni hluta að skoða þetta mál með jákvæðum hætti og leita allra mögulegra leiða í því. Við búum hins vegar við það að ekki verður hjá því komist að færa stofnféð niður að einhverjum hluta og jafnvel að öllu leyti. En ég ítreka að þetta frumvarp er skref í rétta átt til þess að byggja upp sparisjóðina til þess að þeir geti á ný orðið sá máttarstólpi sem þeir voru sannarlega um langa hríð, um langan tíma í byggðum landsins. Og ég ítreka það að þættir í frumvarpinu girða fyrir og koma í veg fyrir að það sé hægt að ganga fram með þeim hætti sem gert hefur verið.