137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[20:13]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég stend að minnihlutaáliti viðskiptanefndar og er algjörlega sammála því að þær breytingartillögur sem meiri hluti viðskiptanefndar leggur fram við þetta frumvarp séu til bóta. En ég verð hins vegar að segja — og það er mjög stórt en — að ég hef mjög miklar efasemdir um framtíð sparisjóðakerfisins ef áform stjórnarmeirihlutans í þessu frumvarpi verða að veruleika.

Sparisjóðirnir hafa náttúrlega gegnt geysilega veigamiklu hlutverki í íslensku fjármálalífi og oft verið einu fjármálastofnanirnar í mörgum dreifðari byggðum landsins. Kannanir sýna að sparisjóðir njóta mikils velvilja hjá íslensku þjóðinni og hafa án undantekninga fengið hæstu einkunn hvað varðar þjónustu og ímynd. Ég tel að sparisjóðakerfið geti gegnt lykilhlutverki við að reisa heiðarlegt og gott fjármálakerfi í landinu. Til þess að það geti orðið þarf björgun þeirra og endurreisn að byggjast á þeim grunngildum sem sparisjóðirnir eru byggðir á og tryggja að þeir starfi eftir dreifðri eignaraðild þar sem jafningjarétturinn stýrir ferð.

Þetta eru ekki mín orð heldur fer ég hér í smiðju hæstv. ráðherra Jóns Bjarnasonar sem hefur að mínu mati hingað til verið einn helsti baráttumaðurinn fyrir íslenskum sparisjóðum, alla vega í orði, þó að ég verði að efast með framlagningu þessa frumvarps um að svo sé á borði.

Í 7. gr. frumvarpsins er miðað við að gefa heimild til lækkunar stofnfjár. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að þetta verði gert til að gefa möguleika á að rétta af varasjóði sem eru neikvæðir sökum slæmrar stöðu sparisjóðanna með aðkomu annarra fjárfesta og er þar sérstaklega verið að líta til að eignarhluti ríkisins endurspegli framlag þess. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við höfum í huga að þessi grein er ekki nauðsynleg heldur er um að ræða pólitíska ákvörðun að lækka stofnfé. Ekkert í núverandi lagaumhverfi eða reglum kemur í veg fyrir að ríkið leggi fram stofnfé í sparisjóðina. Það var á þeirri forsendu sem sparisjóðirnir sóttu um stofnfjárframlag frá ríkinu, þ.e. að það væri allt til staðar í núgildandi lögum.

Í viðtali við hæstv. viðskiptaráðherra Gylfa Magnússon á visir.is í dag kom fram að menn virðast ítrekað misskilja grundvallarmun á milli hlutafjár og stofnfjár. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„... það er ekki réttlætanlegt að ríkið taki þennan hóp fólks sérstaklega út fyrir sviga og niðurgreiði tap þeirra þegar ekki er hægt að niðurgreiða tap allra ...“

Þeir sem áttu hlutafé í fyrirtækjum vissu að þeir gætu tapað öllu hlutafénu. Það kemur skýrt fram í lögum um hlutafélög að þessi áhætta er til staðar. Því má reikna með að fólk taki ákvörðun út frá þeirri áhættu, vegi hana og meti og jafnvel ákveði að fjárfesta ekki í viðkomandi fyrirtækjum eða minna en ella. Hins vegar þegar núverandi stofnfjáreigendur tóku ákvörðun um að leggja fram stofnfé var ekki heimilt að skrifa niður stofnfé. Þess vegna erum við einmitt að ræða um 7. gr. hérna í frumvarpinu. Það er ekki heimilt í augnablikinu að skrifa þetta niður.

Ég hef því velt fyrir mér og rætt það á fundum viðskiptanefndar hvort hér geti verið um hreina og klára eignaupptöku að ræða sem stangist þannig á við ákvæði stjórnarskrárinnar. Því miður vannst ekki tími til þess að fá svör við þessu frá löglærðu fólki þannig að þess vegna eru þetta fyrst og fremst mínar vangaveltur.

Ég vil líka benda á umsögn Sparisjóðs Svarfdæla. Í henni segir, með leyfi forseta:

„Andi laga um stofnfé í sparisjóði var í upphafi, og er enn í hugum flestra, að stofnfé sé allt annað fyrirbæri en hlutafé og lúti öðrum lögmálum. Hlutafé á tilkall til alls eigin fjár hlutafélags en stofnfé ekki. Þannig eru hluthafar eigendur hlutafélags en stofnfjáreigendur eru ekki eigendur sparisjóðs heldur skilgreindir sem gæslumenn sparisjóðs.“

Á þessa skilgreiningu hef ég meðal annars rekist í greinum eftir hæstv. ráðherra Jón Bjarnason og mig minnir líka hæstv. ráðherra Ögmund Jónasson.

Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Það er fyrst og fremst ákvæði 7. gr. frumvarpsins um lækkun stofnfjár sem breytir þeim anda sem verið hefur og þá sérstaklega að þetta ákvæði er eingöngu komið inn í frumvarpið að kröfu ríkisvaldsins vegna fyrirhugaðrar aðkomu þess að endurreisn sparisjóðanna.

Á fundum sparisjóðanna hafa menn staðnæmst við skilgreiningu stofnfjár sem innláns sem hefur stöðu eigin fjár líkt og víkjandi lán.“

Ég tel að það megi sjá leifar af þessari hugmyndafræði í núverandi löggjöf þó að mínu mati hafi menn — ég skal viðurkenna það — að menn í mínum flokki hafi verið á undanförnum árum á rangri vegferð varðandi sparisjóðina og tapað sjónum á því hvað sparisjóður sé. Leifar af þessari hugmyndafræði má sjá í því að í núverandi löggjöf er ekki heimilt að skrifa niður stofnfé og greiða má út arð þrátt fyrir tap. Það er litið sem sagt á arðinn sem vöxt af stofnfénu. Það sem var hins vegar gert að mér skilst í löggjöfinni var að orðinu var breytt. Í staðinn fyrir að áður var talað um vexti í lögunum þá var sem sagt orðinu breytt í arð. En hins vegar er hugmyndafræðina að finna í þessum tveimur lagaákvæðum.

Þetta virðist til dæmis vera skilgreiningin á stofnfé í norsku löggjöfinni um sparisjóði sem mér fannst á margan hátt mjög áhugaverð og heillandi. Ég hefði gjarnan viljað að við hefðum gefið okkur tíma, sem sagt þingnefndin í heild, til að skoða löggjöfina eins og hún er annars staðar Norðurlöndunum, bæði þá til dæmis eins og hún er í Noregi þar sem þeir eru með sjálfstæðan lagabálk um sparisjóði. Svo er líka í Svíþjóð. Danir hins vegar eru með líkara form og við þar sem þeir eru með lögin um sparisjóðina þar undir. En það hefði verið svo gaman og áhugavert og gott að mínu mati fyrir framtíð sjóðanna ef við hefðum getað gefið okkur tíma til þess að fara í þessa vinnu. Ég vona svo sannarlega og ég bara treysti á það að orð formanns og fleiri í meiri hlutanum um að við förum í þessa heildarendurskoðun núna í haust muni standa því að ég tel það geysilega mikilvægt.

Hæstv. ráðherra Gylfi Magnússon sagði einnig í sama viðtali, með leyfi forseta:

„Það má segja að þetta sé tilboð sem ríkið gerir og stofnfjáreigendum er heimilt að hafna því ef það er óhagstætt, en þá verða þeir jafnframt að bjarga stofnununum með öðrum hætti ...“

Eins og ráðherra gerir sér væntanlega grein fyrir er ekki um jafna stöðu tveggja samningsaðila að ræða þegar við erum að tala um einstök fyrirtæki einstaklinga, sem eru sem sé stofnfjáreigendurnir, og ríkið sjálft. Kannski mætti einmitt líkja þessu þá aftur við Gróttu og Manchester United eins og ónefndur hagfræðingur gerði fyrir stuttu en ræddi þá að vísu um Icesave-samninginn.

Ég tel líka að enn á ný sé verið krefja stofnfjáreigendur um að fórna sér. Þeir urðu, að mínu mati, margir fyrir miklum samfélagslegum þrýstingi um að reyna að halda í sparisjóðina í héraði, að tryggja fjármálaþjónustu á svæðinu með því að auka stofnfé í sparisjóðunum. Nú eiga þeir enn á ný að fórna sér og það á að taka þá ákvörðun sem er í þessu heimildarákvæði um að skrifa niður stofnfé þeirra jafnvel í einhverjum tilvikum niður í núll og standa þeir þá eftir með miklar skuldbindingar.

Afleiðingin af þessu er að mínu mati að einhverjir af þeim sparisjóðum sem sóttu um þetta stofnfjárframlag frá ríkinu samkvæmt fyrri löggjöf og reglum eru núna einmitt á fullu að reyna að komast undan því að þiggja fjárframlag ríkisins og það virðist eiginlega liggja í orðum ráðherrans að það sé kannski nánast eitthvert undirmarkmið að bara koma í veg fyrir að ríkið leggi þetta inn í sparisjóðakerfið.

Það sem mun gerast að mínu mati er að hugsanlega stöndum við eftir með mjög veikt sparisjóðakerfi, kerfi sem verður ekki fært um að efla sig jafnfljótt og ella og byggja þær undirstöður undir betra og heiðarlegra fjármálakerfi sem ég nefndi fyrr í ræðu minni.

Í nefndarálitinu bendum við einnig á að það koma ekki fram neinar áætlanir um hvernig að niðurfærslunni verður staðið. Það er skilið mjög opið eftir. Mikil hætta er á að hér á landi verði nær eingöngu ríkissparisjóðir með veikan rekstrargrundvöll þar sem erfitt verður fyrir ríkið að losna út aftur enda eru engar áætlanir til um hvernig ríkið eigi að losa sig út sem stofnfjáreigandi. Því ætla menn bara hreinlega að velta fyrir sér einhvern tíma seinna.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson talaði í andsvörum við hv. formann viðskiptanefndar um hugmynd sína um hvort ekki væri hægt að setja eitthvert ákveðið lágmark þannig að það væri ekki skrifað niður fyrir — þ.e. eins og kom fram í hans ræðu að yrði ekki fært neðar en að nafnvirði einn. Þá væri tekið á þessum lukkuriddurum. Margir hafa náttúrlega verið mjög ósáttir við hvernig þeir hafa hegðað sér innan sparisjóðakerfisins. En þá væri þeim sem hafa alltaf keypt bréfin sín á nafnvirði ekki refsað fyrir óvarkárni og græðgi hinna.

Því flyt ég hér breytingartillögu um að 7. gr. frumvarpsins verði einfaldlega felld brott. Það er nokkuð sem ég vonast til, alla vega óska ég eftir því — ég held að það hafi komið hérna fram áður að þetta mál fari aftur inn í nefndina á milli 2. og 3. umr. — að ef menn telja þetta ekki ásættanlegt hvort þeir séu þá tilbúnir að skoða þá tillögu sem kom frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni um að sett verði eitthvert lágmark við niðurfærsluna — fyrirgefið þið, og frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni. Það eru góðir þingmenn þarna í Norðvesturkjördæmi sem vita að styrkur sparisjóðanna hefur einmitt legið í góðum tengslum þeirra við sín heimasvæði. Það er erfitt að sjá fyrir sér sparisjóði án aðkomu heimamanna. Því þarf að tryggja þessa aðkomu að stjórn sjóðanna með einum eða öðrum hætti. Á þetta atriði legg ég geysilega mikla áherslu.

Ég er hins vegar ansi hrædd um að breytingartillaga mín um að 7. gr. frumvarpsins verði felld brott verði ekki samþykkt. Ég er líka ansi hrædd um að þó hv. þm. Guðbjartur Hannesson sé í stjórnarmeirihlutanum verði kannski ekki hlustað á hann og tel því mjög líklegt að ríkið verði hugsanlega eigandi að 80–100% af stofnfé sparisjóðanna á Íslandi. Með þessu þarf að tryggja á einhvern máta aðkomu heimamanna að stjórn sparisjóðanna. Í raun tel ég að það hafi á sínum tíma verið mistök að taka út aðkomu fulltrúa sveitarfélaga að stjórn sparisjóðanna og að víðtæk aðkoma hagsmunaaðila að stjórn sjóðs eigi að vera eitt megineinkenni sparisjóða enda byggðu sjóðirnir á hugsjónum samvinnuhreyfingarinnar um sjálfshjálp, sjálfsábyrgð, lýðræði, jafnrétti, sanngirni og samstöðu og svipað á að gilda um heiðarleika, opna starfshætti, félagslega ábyrgð og umhyggju fyrir öðrum.

Því flyt ég breytingartillögu um stjórn sparisjóðanna, með leyfi forseta, um að við 51. gr. laganna, um að í stjórn sparisjóðs skuli sitja að lágmarki fimm menn bætist eftirfarandi málsgreinar:

„Stofnfjáreigendur ... kjósa tvo stjórnarmenn, hlutaðeigandi sveitarstjórnir eða héraðsnefndir tilnefna tvo stjórnarmenn og innstæðueigendur einn stjórnarmann samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins. Ef starfssvæði sparisjóðs nær yfir fleiri en eitt sveitarfélag skulu viðkomandi sveitarstjórnir eða héraðsnefndir koma sér saman um tilnefningu stjórnarmanna, þannig að fulltrúi hvers sveitarfélags sitji ekki lengur en tvö ár samfleytt í stjórn sjóðsins.

Stjórnin kýs sér formann úr sínum hópi. Heimilt er að kjósa varamenn, jafnmarga aðalmönnum, eftir sömu reglum og gilda um kosningu aðalmanna. Kosning stjórnar skal vera hlutbundin ef óskað er.

Í stjórn sparisjóðs sem er með fleiri en 15 starfsmenn skulu starfsmenn kjósa einn fulltrúa í stjórn sjóðsins. Fulltrúa starfsmanna er ekki heimilt að vera formaður eða varaformaður sjóðsins.“

Þetta ákvæði er að mörgu leyti byggt á því sem ég kynnti mér í norsku löggjöfinni en hún er hins vegar mun ítarlegri en þetta ákvæði. Ég tel líka að þessi tillaga sé fyllilega í samræmi við að minnsta kosti ályktanir annars stjórnarflokksins, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, miðað við það sem ég hef kynnt mér. Þeir hafa einmitt lagt mjög mikla áherslu á aðkomu starfsmanna að stjórn fyrirtækja. Margar samþykktir liggja fyrir, held ég, hjá viðkomandi flokki hvað það varðar. Ég trúi ekki öðru en að jafnaðarmönnum hugnist þetta líka því að þetta hefur verið eitt af einkennum stjórna fyrirtækja til dæmis í Svíþjóð, þ.e. aðkoma starfsmanna að stjórnum fyrirtækja.

Ég ber einnig í brjósti mér þá von að einhverjir í framtíðinni hafi áhuga á því að stofna nýjan sparisjóð og legg því til að nýir sparisjóðir njóti sömu réttinda og starfandi sparisjóðir varðandi lágmarksupphæð á stofnfé og er sú tillaga svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:

Hlutafé viðskiptabanka og lánafyrirtækis skal að lágmarki nema jafnvirði 5 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni. Stofnfé sparisjóðs með starfsemi á Íslandi skal að lágmarki nema jafnvirði 1 milljónar evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni.“

Fellur þar með niður 77. gr. í núverandi löggjöf sem fjallar um undanþágu fyrir starfandi sparisjóði varðandi stofnfé. Þetta hefur bara gilt fyrir þá starfandi en ef nýir sparisjóðir hafa ætlað að fara af stað hafa þeir þurft að vera með 5 milljónir evra og tel ég að þetta hafi að einhverju leyti verið hamlandi fyrir stofnun nýrra sjóða.

Ég hefði einnig haft mjög mikinn áhuga á að sjá breytingar á aðkomu nýrra stofnfjáreigenda þannig að ekki væri hægt að handvelja stofnfjáreigendur heldur byggðist val þeirra á því hvort þeir ættu í viðskiptum við sjóðinn og áhuga þeirra á því að gerast stofnfjáreigendur. Einnig þar væri byggt á hugsjónum samvinnuhreyfingarinnar um eitt atkvæði, einn stofnfjáreiganda á stofnfjáreigendafundum líkt og ég skil norsku löggjöfina.

Í nefndaráliti minni hlutans er þetta talið upp sem hluti þess sem mikilvægt hefði verið að taka á auk margra annarra þátta.

Svo vil ég nefna atriði sem mjög mikilvægt líka, eins og kemur fram í nefndaráliti okkar, er að tekið verði á í tengslum við lagasetningu sem þessa. Þau eru: 1. skýrar skilgreiningar, 2. rekstrarumhverfi sparisjóðanna, 3. tengsl við heimasvæði og upphæð stofnfjár, 4. gagnsæi í reglum um stofnfjáreigendur, 5. hverjir geti orðið stofnfjáreigendur, 6. stjórnkerfi sparisjóðanna, 7. atkvæðavægi stofnfjárhlutar og svo áfram og áfram.

Að mínu mati og mati minni hlutans liggur fyrir að fara þarf fram mikil vinna varðandi sparisjóðina. Ég veit að það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að þeir hafa líka mjög mikinn áhuga á auknu gagnsæi við val á stofnfjáreigendum þannig að ekki verði handvalið hverjir geti orðið stofnfjáreigendur. Mín tilfinning er eftir viðræður innan nefndarinnar að mönnum fyndust margar að af þeim hugmyndum sem ég hef nefnt hér mjög áhugaverðar og áhugavert að skoða hvað sé að finna í löggjöf annarra landa.

Að lokum verð ég bara að segja að hugur minn er náttúrlega hjá fjölda þeirra stofnfjáreigenda sem tóku þá afdrifaríku ákvörðun að styðja við sinn sparisjóð, oft undir miklum samfélagslegum þrýstingi til að verja sjóðina gegn hinum svokölluðu lukkuriddurum sem sóttu í hið margfræga fé án hirðis. Ég veit að margir þeirra hefðu aldrei tekið þá ákvörðun ef legið hefði fyrir túlkun ráðherrans og stjórnarliðanna á því hvað stofnfé er. En þeir verða víst núna að treysta á guð og lukkuna og kannski hina frægu velferðarbrú ríkisstjórnarinnar.