137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[20:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og kannski sérstaklega fyrir góða tilvitnun í hæstv. ráðherra Jón Bjarnason um það sem ég er hjartanlega sammála að sparisjóðirnir geti og eigi að gegna lykilhlutverki við enduruppbyggingu heilbrigðs fjármálakerfis á Íslandi. Til þess eru refirnir skornir, til þess er þetta frumvarp fram lagt. Til þess eru þær breytingartillögur sem meiri hlutinn hefur kynnt. Ég hlýt að ítreka enn og aftur að það er alger misskilningur að þetta frumvarp sé einhvers konar atlaga að sparisjóðakerfinu í landinu, að þetta sé atlaga að stofnfjáreigendum.

Við höfum rætt undanfarna klukkutíma nokkuð um muninn á hlutafé annars vegar og stofnfé hins vegar og mig til langar að varpa fram einni spurningu varðandi það til hv. þingmanns. En ég hlýt þó að segja vegna orða hennar um að niðurfærsla stofnfjár þeirra sem fjárfestu í fjármálastofnunum undir heitinu sparisjóðir stangist á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar þá hljótum við að hafa það í huga að margir hafa tapað á bankahruninu og þegar ríkið er að koma að með skattfé þá hlýtur að verða að gæta tiltekins jafnræðis.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hún túlkar 63. gr. laga um fjármálafyrirtæki um ábyrgð stofnfjáreigenda á skuldbindingum sparisjóðs, hvernig túlkar hv. þingmaður þá grein sem er nær óbreytt tekin upp í það frumvarp sem við ræðum? Ég spyr vegna þess að það er ekki þannig að stofnfjáreigendur séu einungis gæslumenn, eins og hv. þingmaður vitnaði til og er að finna í áliti Sparisjóðs Svarfdæla. Stofnfjáreigendur eru líka ábyrgðarmenn sjóðsins og nægir þar að vitna í þessa grein.