137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[20:58]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir að ítreka það sem ég sagði: Það er nefnilega alveg rétt að hv. þingmaður sagði að það væri ekki brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar að móta stefnu til að fara út úr fjármálastofnununum. Virðulegi forseti. Það er það sem við höfum áhyggjur af. Það liggur alveg fyrir að það er vilji hv. þingmanns að ríkið taki sparisjóðina yfir og verði þar. Þetta er bæði gömul og augljóslega ný stefna vinstri flokkanna í landinu og við þurfum ekkert að fara langt til þess að fara í smáættfræði þegar kemur að flokki Vinstri grænna því þó svo að sá flokkur hafi skipt nokkrum sinnum um kennitölu þekkjum við alveg fyrir hvað sá flokkur og fyrirrennarar hans hafa staðið á undanförnum árum og áratugum. Hér kom þetta skýrt fram, því miður, að það er ekki brýnasta málið að fara út úr þessum fjármálastofnunum, ekki brýnasta mál (Forseti hringir.) þessarar ríkisstjórnar.