137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[21:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir spurði hver væri ástæðan fyrir því að það kæmi ekki fram hvað minni hlutinn ætlaði að gera. Ég get náttúrlega bara svarað fyrir mig en ástæðan til að það kemur ekki skýrt fram í nefndarálitinu sjálfu er að ég er alla vega enn þá að vona að frumvarpið fari ekki í gegn eins og það er núna og að það verði tekið tillit til þeirra skoðana, tillagna og þeirra ábendinga sem hafa komið fram í umræðunni. Þess vegna erum við að óska eftir því að málið fari aftur inn í nefnd og það verði unnið áfram í því vegna þess að við teljum það ekki vera fullskapað eins og það er núna.

Varðandi það sem hv. þingmaður talaði um í ræðu sinni, um hvort þetta væri heimilt eða ekki, að færa niður stofnfé í 7. gr. þá er það þannig að ef þetta liggur í lögunum eins og hv. þingmaður vill túlka þá sé ég ekki hver ástæðan er fyrir því að vera að leggja 7. gr. fram. Í framhaldi af því spyr ég hvort hún geti þá ekki tekið undir breytingartillögu mína um að fella 7. gr. út, því eins og hv. þingmaður vill túlka lögin þá sé þessi heimild til staðar. Og þá skil ég ekki af hverju við erum einu sinni að ræða þetta eins og þetta er núna, ég þyrfti þá kannski frekar að breyta einhverjum öðrum lögum eða hugsanlega að leggja fram breytingartillögu að einhverjum öðrum lögum.

Ég ítreka enn á ný að það kemur sterkt fram í orðum hv. þingmanns að hérna er verið að biðja stofnfjáreigendur enn á ný að fórna sér fyrir sparisjóðinn sinn, að fórna sér fyrir byggðarlagið, það eigi að setja hagsmuni sína, gefa eftir stofnféð til að tryggja hagsmuni ríkisins og þá hugsanlega, vonandi eins og ríkisstjórnin virðist túlka það, og þá hagsmuni sparisjóðsins. Ég verð að segja fyrir mína parta að mér finnst vera farið fram á mjög mikið frá þessum einstaklingum.